Nýtt tilfelli riðu í Skagafirði
Riðuveiki hefur verið staðfest á búi í nágrenni Varmahlíðar í Skagafirði. Riðan greindist í sýni úr kind frá bænum Grófargili við Varmahlíð en á bænum eru nú um 100 fjár. Síðast greindist riða á þessu svæði árið 2019 á bænum Álftagerði. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.
Bóndinn hafði samband við Matvælastofnun þar sem kindin sýndi einkenni riðuveiki. Kindin var skoðuð, síðan aflífuð og sýni tekin og send á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum þar sem riðuveiki var staðfest.
Búið er í Húna- og Skagahólfi og í því hólfi hefur riðuveiki komið upp á tuttugu búum á undanförnum 20 árum. Þetta er í fyrsta skiptið sem riða greinist á bænum en árið 2016 greindist riða á bænum Brautarholti sem er næsti bær við Grófargil. Riðuveiki hefur komið upp á mörgum bæjum í Varmahlíð í gegnum tíðina og má því segja að um þekkt riðusvæði sé að ræða.
Þetta er fyrsta tilfelli riðuveiki sem greinist á árinu og í fyrra greindist einnig eitt tilfelli. Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011-2014. Riðan er því á undanhaldi en þetta sýnir að ekki má sofna á verðinum. Á undanförnum árum hafa sýni verið tekin við slátrun úr u.þ.b. þrjúþúsund kindum á ári. Jafnframt hafa bændur verið hvattir til að senda hausa til Keldna af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, eða hafa samband við dýralækni um að taka sýni úr slíku fé. Aukin áhersla er á að fá slík sýni þar sem það eykur líkur á að finna riðuna.
Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð.