Fara í efni

Nýtt riðutilfelli í Miðfirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Riða hefur verið staðfest á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu. Unnið er að undirbúningi aðgerða. Greiningin breytir því að Miðfjarðarhólf telst nú sýkt svæði samkvæmt reglugerð.

Í síðustu viku höfðu bændurnir á bænum samband við Matvælastofnun og tilkynntu um veikar kindur með einkenni sem gætu bent til að um riðu væri að ræða. Starfsfólk stofnunarinnar fór á bæinn og tók sýni. Tilraunastöð HÍ að Keldum hefur nú staðfest greiningu á riðu. Undirbúningur aðgerða er hafinn. Á bænum eru 690 kindur og verður þeim öllum lógað eins fljótt og kostur er. Sýni verða tekin úr fénu til rannsóknar á riðu og arfgerðagreiningar. Faraldsfræðilegum upplýsingum verður safnað og áhersla lögð á að rekja hvert kindur af bænum hafa verið fluttar. Í ljósi þess að mest hætta er á smitdreifingu við sauðburð er mikilvægt að þeim kindum verði einnig lógað sem fyrst.

Bærinn er í Miðfjarðarhólfi en riða hefur aldrei greinst í því og það því fallið undir skilgreininguna ósýkt svæði, sbr. reglugerð um útrýmingu á riðuveiki. Vegna þessarar greiningar er hólfið nú skilgreint sem sýkt svæði. Sú megin breyting sem það hefur í för með sér er að óheimilt er að flytja sauðfé til lífs milli hjarða í hólfinu og hvaðeina annað sem borið getur smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla, hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Enn fremur er óheimilt að hýsa aðkomufé, fóðra það eða brynna því með heimafé.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um riðu


Getum við bætt efni síðunnar?