Nýjar verklagsreglur: verslun með lömb með verndandi/mögulega verndandi arfgerðir gegn riðu
Settar hafa verið nýjar verklagsreglur um sölu og flutning á líflömbum með þessar arfgerðir sem Matvælastofnun mun taka mið af við afgreiðslu umsókna um verslun með líflömb. Jafnframt verður hugað að því að minnka líkur á dreifingu annarra sjúkdóma, s.s. garnaveiki.
Við viljum árétta að hver sá sem áhuga hefur á að selja lömb með þessar arfgerðir þarf að sækja um leyfi til þess í gegnum þjónustugátt Matvælastofnunar. Hafist verður handa við afgreiðslu umsókna innan skamms.
Athygli er vakin á því að flutningur lambanna skal fara fram áður en þau eru tekin á hús fyrir veturinn á fæðingarbúinu og er miðað við að flutningi sé lokið fyrir 20.október. Er þetta gert til þess að minnka líkur á umhverfissmiti.
Nánari útfærslu á reglunum má sjá undir flipanum „Bændur – Sauðfé og geitur – Flutningar og sjúkdómavarnir – Sérstakar reglur um flutning á lömbum með verndandi arfgerðir m.t.t riðu".