Fara í efni

Nýjar norrænar næringarráðleggingar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Tillögur að nýjum norrænum næringarráðleggingum (5. útgáfu)  voru kynntar á norrænni næringarráðstefnu 5. júní. Vísindamenn vinnuhóps NNR5 (Opinbers samstarfs Norðurlandanna) hafa rýnt núverandi vísindaþekkingu á tengslum mataræðis og sjúkdóma en telja ekki ástæðu til mikilla breytinga á  næringarráðleggingum. Helsta breyting er að lögð er meiri áhersla á hvaða matarvenjur hafa almenn jákvæð áhrif á heilsu frekar en að ráðleggja um neyslu einstakra næringarefna.

Samkvæmt NNR getur fjölbreytt fæði sem er ríkt af ávöxtum, grænmeti, trefjaríku korni, fiski, jurtaolíum og inniheldur fitulitlar mjólkurafurðir og takmarkað salt dregið úr hættu á fæðutengdum sjúkdómum. Sætir drykkir, sælgæti, sætabrauð, hvítt hveiti og hörð fita eins og smjör auka hættu á sjúkdómum og þyngdaraukningu. Einnig getur mikil neysla á rauðu kjöti haft neikvæð áhrif á heilsu.

Í nýju tillögunum er ekki lögð áhersla á hversu mikið af kolvetnum og fitu við neytum heldur hvernig kolvetni og fitu við neytum. Með þessu eru neytendur hvattir til að velja frekar heilkorn og trefjar en sykur og hvítt hveiti og velja sömuleiðis jurtaolíur og mjúk smjörlíki frekar en smjör. Breytingar varðandi einstök næringarefni eru þær að lagt er til að neysla verði aukin á D-vítamíni og selen.

Ráðleggingarnar byggja á áliti rúmlega hundrað vísindamanna og næringarsérfræðinga. Skoðaðar voru vísindalegar rannsóknir frá árinu 2000 sem uppfylltu ákveðin fagleg skilyrði, einkum vísindagreinar á nýjum sviðum þar sem mikil rannsóknarvinna hefur átt sér stað. Tillagan verður lögð fyrir Norrænu ráðherranefndina til samþykktar í haust, að umsagnartíma loknum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?