Fara í efni

Ný lög um vernd afurðaheita

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í lok desember 2014 samþykkti Alþingi ný lög um vernd afurðaheita þar sem heimilað er að vísa sérstaklega til uppruna þeirra afurða sem slíkrar verndar njóta, þess svæðis sem þau koma frá eða hefðbundinnar sérstöðu þeirra. Markmið laganna er að veita þeim afurðum sem uppfylla þær kröfur og þau skilyrði sem sett eru um slíkar vörur nauðsynlega lagalega vernd auk þess að stuðla að aukinni neytendavernd og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti.

Með lögunum er íslenskum framleiðendum gert mögulegt að sækja um sérstaka vernd fyrir afurðir sínar á grundvelli eins eða fleiri fyrrgreindra atriða. Slík vernd afurða er nýlunda hér á landi en hefur tíðkast um árabil í nágrannalöndum okkar og munu margir kannast við sérmerkta osta frá Frakklandi eða skinku frá Spáni svo dæmi sé tekið.

Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu átt í viðræðum við Evrópusambandið um að tiltekin afurðaheiti sem fengið hafa slíka vernd innan Evrópusambandsins muni einnig njóta slíkrar verndar hér á landi. Stjórnvöld leggja nú mat á hvort af slíku verður. 

Áður en fallist er á vernd erlendra heita samkvæmt milliríkjasamningi skal Matvælastofnun auglýsa lista yfir þau afurðaheiti sem verndar munu njóta auk upplýsinga um hvar nálgast megi afurðalýsingu fyrir viðkomandi matvæli.

Matvælastofnun auglýsir því hér með eftir andmælum gegn því að heiti þau sem listuð eru á heimasíðu stofnunarinnar (sjá ítarefni) öðlist vernd á Íslandi. Andmæli skulu vera skrifleg og berast Matvælstofnun, Austurvegi 64, 800 Selfossi, fyrir 31. ágúst 2015.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?