Fara í efni

Norrænu matvælaverðlaunin 2009

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  Verðlaun kennd við nýja norræna matargerðarlist voru afhent í Skíðaskálanum í Hveradölum í gær. Að þessu sinni hreppti Hotel Arctic í Ilulissat á Grænlandi verðlaunin en þetta er þriðja skipti sem þau eru veitt. Vinningshafi hlýtur heiðursskjal og peningaverðlaun sem nema 100.000 dönskum krónum.

Verðlaunin eru veitt af áætlun Norrænu ráðherra-nefndarinnar um nýja norræna matargerðarlist. Sjö voru tilnefndir til verðlaunanna í ár, en þema ársins var menning og hönnun tengd við matargerð og matarmenningu.

Hotel Arctic, sem er í bænum Ilullisat á Grænlandi, hefur í fjölda ára samþætt list og menningu í þeirri upplifun sem hótelið vill veita gestum sínum. Matseðill veitingastaðarins einkennist af grænlensku hráefni, innréttingar eru norræn hönnun og listaverkin grænlensk. Auk þess er boðið upp á grænlenska tónlist og dans. Nándin við Ísafjörðinn, ásamt birtunni og veðrinu eru náttúrulegur hluti af daglegu lífi á hótelinu - meðvitað samspil matar, menningar og náttúru, allt af norrænum uppruna.


Þemað „Norrænn matur fyrir umheiminn", hefur verið reglulega á dagskrá hótelsins, og í tengslum við 25 ára afmæli hótelsins tekur Jeppe Ejvind Nielsen nú við sem nýr yfirmatsveinn.

Á mynd sjást nýkrýndir verðlaunahafar, þau Jeppe Ejvind Nielsen (til vinstri), ásamt Erik Bjerregaard  hótelstjóra og konu hans Susanne, sem klædd var hefðbundnum grænlenskum klæðum og fór með þakkarræðu á grænlensku.

Verðlaunaafhendingin var dagskrárliður á Norrænu ráðstefnunni, Nordic Values in the Food Sector, sem er  framlag Íslands í formennskusæti Norrænu ráðherranefndarinnar til matvælasamstarfs og var skipulögð af Matvælastofnun, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Matís og Samtökum iðnaðarins.

Markmiðið með verðlaununum er að heiðra og styðja við stofnun eða einstakling sem hefur lagt mikið að mörkum við að kynna, þróa og vekja athygli á gildum og möguleikum sem felast í norrænum matvælum og norrænni matargerðarlist.
 
 

Jeppe, Susanne og Erik taka á móti verðlaununum


Fyrri vinningshafar eru Íshótelið í Jukkasjärvi í Svíþjóð (2007) og grænmetisframleiðandinn Kasvis Galleria í Kuopio í Finnlandi (2008).

Markmiðið með áætluninni, sem hrint var af stað haustið 2006, er að kynna norræna matargerðarlist og gæði og jafnframt hönnun og ferðaþjónustu sem tengist mat. Áætluninni, sem hefur verið mjög vel tekið, lýkur um næstu áramót. Norrænu ráðherrarnir sem fara með málefni matvæla hafa nú ákveðið að áætluninni skuli fram haldið.Getum við bætt efni síðunnar?