Fara í efni

Niðurstöður eftirlitsverkefnis um fæðubótarefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsverkefni eru eitt af þeim tækjum sem opinberir eftirlitsaðilar nota til að samræma vinnubrögð og til að beina sjónum að ákveðnum þáttum.



  Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirlit sveitar-félaganna (HES) stóðu síðastliðinn vetur (september 2010 - mars 2011) að könnun á því hvort að fæðubótarefni á markaði uppfylli ákvæði helstu laga og reglugerða sem um þau gilda.

Fjögur heilbrigðiseftiritssvæði tóku þátt í verkefninu: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlit Austur-lands, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.  Helstu þættir sem verið var að kanna voru merkingar fæðubótarefna og það hvort þau innihéldu efni sem eru skilgreind sem lyf eða lyfjavirk. Auk þess var kannað hvort um óleyfilega markaðssetningu væri að ræða og hvort að fyrirtæki sem selja fæðubótarefni starfræki innra eftirlit.

Aðeins 2 vörur (3,8%) af þeim 53 sem skoðaðar voru í þessu verkefni  uppfylla öll skilyrði sem athuguð voru. Samskonar verkefni var unnið af Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga árið 2006. Þá uppfylltu 3 vörur (2,8%) af 135 öll skilyrðin. Af þessu er ljóst að ástand fæðubótarefna á markaði hefur lítið skánað síðan 2006. 

Um 33% vara sem skoðaðar voru innihéldu lyf eða efni sem vafi leikur á um hvort séu lyf. Árið 2006 var þetta hlutfall um 24%. Aðeins 22% vara sem skoðaðar voru hafa verið tilkynntar til MAST, eins og skylt er samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 624/2004 um fæðubótarefni. Árið 2006 var þetta hlutfall undir 5% svo hvað þetta varðar hefur ástandið aðeins batnað, en hlutfallið er enn allt of lágt.

Af framangreindu er ljóst að mikið vantar upp á að fyrirtæki sem dreifa fæðubótarefnum fari að öllum lögum og reglum sem settar eru um þessar vörur. Ábyrgðin á því að vara uppfylli skilyrði laga og reglugerða er í höndum innlends dreifingaraðila eða framleiðanda. Hins vegar sýna niðurstöður að opinberir eftirlitsaðilar þurfa að herða eftirlit með þessum fyrirtækjum og auka upplýsingagjöf til þeirra til að ná fram bættu ástandi á fæðubótarefnum á íslenskum markaði.

Skýrslu um eftirlitsverkefnisins má sjá í heild hér að neðan.


Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?