Fara í efni

Munnáverkar hjá keppnishrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú líður óðum að stærsta viðburði hestamanna, Landsmóti hestamannafélaga, sem hefst á Hellu 29. júní. Af því tilefni vill Matvælastofnun vekja athygli á niðurstöðum heilbrigðisskoðunar á keppnishrossum undanfarinna ára og nýrra upplýsinga sem byggja á greiningum áhættuþátta fyrir áverka í munni.   

Það er sameiginlegur hagur allra þeirra sem unna íslenska hestinum og hafa atvinnu af starfsemi sem honum tengist að velferð hestsins sé í fyrirrúmi. Landsmót hestamannafélaga hefst um helgina og því er rétt að minna á að heilbrigðisskoðun keppnishrossa árið 2012 leiddi í ljós að alvarlegustu munnáverkana var að finna yfir og á kjálkabeini neðri kjálka (á tannlausa bilinu) og því er forgangsmál að fyrirbyggja áverka á því svæði munnsins.

Sterk og hámarktæk tengsl voru á milli notkunar á stangamélum með tunguboga og áverka á kjálkabeini. Ríflega helmingur eða 51% þeirra hrossa sem hafði verið riðið við tunguboga voru með áverka á kjálkabeini fyrir úrslit, í flestum tilfellum alvarlega. Gilti þá einu hvort um var að ræða einjárnung með tunguboga eða þrískipt mél með tunguboga. Þessir áverkar voru nánast ekki til staðar hjá hrossum sem hafði verið riðið við aðrar gerðir méla. Notkun á stangamélum með tunguboga reyndist auka hættuna á áverkum á kjálkabeini 75 falt miðað við notkun á öðrum mélum. Marktæk aukning kom einnig fram á tíðni og alvarleika áverka á kjálkabeini á milli fyrstu skoðunar (fyrir fyrstu forkeppni) og síðustu (fyrir síðustu úrslit) sem endurspeglar afleiðingar þess að mélin hafi verið notuð í keppni. Því má gera ráð fyrir að enn hærri tíðni áverka á þessu svæði hefði komið í ljós að loknum úrslitum.

Ekki reyndist marktækur munur á tíðni áverka milli mismunandi keppnisgreina. Áberandi há tíðni meðal hesta sem kepptu í tölti (67%) skýrðist að öllu leyti af því hversu algengt var að knapar hefðu notað stangamél með tunguboga í þeirri keppnisgrein. Engir áverkar fundust hjá sex hrossum sem riðið var við hefðbundnar íslenskar stangir. Því má ætla að það sé tunguboginn fremur en stangirnar sem slíkar sem hafi afgerandi áhrif á þróun áverka á kjálkabeini. Tunguboginn gerir það að verkum að tungan nær ekki að dempa þrýstinginn frá mélunum og hann lendir þá beint á kjálkabeinunum. Yfir þeim er einungis þunn slímhúð sem getur ekki varið hina tilfinningaríku beinhimnu og sjálft beinið fyrir þrýstingnum sem leiðir fyrr eða síðar til sársaukafullra áverka.

Af þessum ástæðum hefur Landsamband hestamannafélaga nýlega bannað notkun stangaméla með tunguboga í sínum keppnisreglum. Er það án vafa eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í þágu velferðar keppnishesta hér á landi. Hins vegar er ekki búið að stöðva að kynbótahross séu sýnd fyrir dómi með þessum búnaði.

Knapar hafa umsjón með hrossum sem þeir ríða og eru ábyrgir fyrir meðferð þeirra. Því er vakin athygli á 17. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, en hún hljóðar svo:

„Hver sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt skal tryggja að þau:
a. hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
b. hafi ekki verið meðhöndluð með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu þannig að það samræmist ekki velferð þeirra,
c. séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta.“

Ennfemur er bent á 32. gr. laganna, a lið, þar sem segir:

„Hver sá sem heldur dýr ber ábyrgð á að starfsaðferðir, tæki, tól og hvers konar útbúnaður sem notaður er á dýr í umsjá hans séu ekki andstæð velferð dýra.“

Þar sem fyrirséð er að notkun stangaméla með tunguboga getur leitt til alvarlegra áverka er athygli knapa og eigenda hrossa vakin á þeim þvingunum og/eða refsingum (t.d. stjórnvaldssektum) sem lög um velferð dýra heimila þegar brotið er gegn ákvæðum laganna, s.s. varðandi notkun á tækjum, tólum og öðrum útbúnaði, sem er í andstöðu við velferð dýra, eða með því að nota aðferðir við keppni eða sýningar sem valda þeim skaða.

Matvælastofnun hefur jafnframt mælst til þess við ráðherra að notkun stangaméla með tunguboga verði bönnuð, þar sem hún telji að búnaðurinn brjóti gegn framangreindum ákvæðum dýravelferðarlaga, en lögin gera ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um bann við eða takmörkun á dreifingu á starfsaðferðum, tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði, ef sú dreifing eða notkun er andstæð velferð dýra.

Höldum Landsmót með stolti og höfum velferð hestins að leiðarljósi.


Getum við bætt efni síðunnar?