Fara í efni

Minnkum matarsóun

Um 59 milljón tonna af matvælum eða um 131 kg/íbúa er sóað í Evrópu árlega. Rúmlega helming má rekja til matarsóunar á heimilinum. Umhverfisstofnun hefur gert rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi. Niðurstaðan var að matarsóun á heimilum hérlendis er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu. Í upphafi árs kynnti Umhverfistofnun nýja rannsókn á matarsóun hérlendis.

Alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun er 29 september. Einkunnarorð dagsins eru “Stöðvum matartap og matarsóun. Fyrir fólkið. Fyrir jörðina”. Tilgangurinn er að auka meðvitund um umfang matarsóunar og mikilvægi aðgerða meðal matvælaframleiðanda, smásala og neytenda til að minnka matarsóun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 12 er ábyrg neysla og framleiðsla. Eitt undirmarkmiðanna er; „Eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming. Nýting í matvælaframleiðslu og hjá birgðakeðjum verði bætt, þ.m.t. við uppskeru“.

Með því að draga úr matarsóun má vernda umhverfið, nýta betur auðlindir og spara fé. Draga má úr sóun með því að breyta umgengni okkar við matvæli. Sjá nánar ýmis hagnýt ráð um leiðir til að draga úr matarsóun undir verkefninu Saman gegn sóun.

Hvað geta neytendur gert til að draga úr matarsóun?

Matvælastofnun hefur tekið saman ábendingar um hvað neytendur geta gert til minnka matarsóun. Þar á meðal eru upplýsingar um

  • rétta geymslu matvæla
  • mun á geymsluþolsmerkingunum „best fyrir“ og „síðasti notkunardagur“ því matvæli sem er merkt með „best fyrir“ eru oft góð lengur
  • umgengni við frískápa

Hvað geta matvælafyrirtæki gert til að minnka matarsóun?

Hægt er að minnka matarsóun með því að endurúthluta mat. Við endurúthlutun eru umframmatvæli frá matvælafyrirtækjum gefin til að koma í veg fyrir matarsóun. Reglur sem gilda um matvæli almennt, gilda líka um matvæli sem eru gefin. Matvæli verða að vera örugg til neyslu, með réttum upplýsingum þar sem við á og rekjanleiki þeirra tryggður.

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir matvælafyrirtæki sem gefa matvæli og góðgerðasamtök sem taka á móti matvælagjöfum og deila þeim áfram til neytenda. Styðjast má við leiðbeiningarnar við ákvarðanatöku um matvælagjafir með það að markmiði að tryggja öryggi matvæla.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?