Fara í efni

Merking á erfðabreyttum matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Að undanförnu hafa borist ábendingar um að enn sjáist varla matvæli í búðum sem merkt eru sem erfðabreytt þrátt fyrir að reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs hafi tekið gildi, þann 1. september 2011 fyrir fóður, en 1. janúar 2012 fyrir matvæli.

Ábyrgð á merkingu matvæla liggur hjá framleiðendum þeirra eða stjórnendum fyrirtækja sem setja þau á markað. Samkvæmt matvælalögum er óheimilt að villa um fyrir neytendum með merkingum eða öðrum upplýsingum sem veittar eru um matvæli og á öllum stigum framleiðsu og markaðssetningar skal vera til staðar kerfi sem tryggir rekjanleika matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra. Það er því á ábyrgð fyrirtækja eða forráðamanna þeirra að afla upplýsinga um hvort matvæli séu erfðabreytt eða geti innhaldið erfðabreytt efni og ef svo er, tryggja að neytendur fái upplýsingar um þetta í samræmi við gildandi reglur.

Löggjöf hér á landi um merkingu á erfðabreyttum matvælum tekur mið af reglum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Í ríkjum utan EES eins og í Bandaríkjunum eru hins vegar engar reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum og notkun á erfðabreyttum hráefnum er einnig algengari þar en í Evrópu. Þetta á ekki síst við um vörur sem innihalda maís eða soja, en fleiri hráefni geta verið erfðabreytt og innihaldsefni geta verið unnin úr erfðabreyttum hráefnum. Dreifingaraðilar þurfa að hafa þetta í huga og afla upplýsinga frá framleiðanda til að tryggja rétta merkingu vöru sem sett er á markað.


    Innflytjendur fóðurs hafa tekið þá stefnu að merkja fóður frá Ameríku, sem inniheldur maís eða soja, sem erfðabreytt. Þeir sem markaðssetja matvæli virðast ekki hafa tekið sömu stefnu og liggur því fyrir að kanna hvaða upplýsingar þeir hafa fengið um uppruna hráefna eða hvort þeir hafi óskað eftir slíkum upplýsingum. Einnig má vera að einhverjir framleiðendur hafi ekki talið sig geta upplýst hvort um erfðabreytt hráefni er að ræða þar sem engar kröfur séu gerðar um slíka merkingu í framleiðslulandinu.

Um opinbert eftirlit með reglum um merkingar erfðabreyttra matvæla og fóðurs segir í 10. gr. reglugerðarinnar: „Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna erfðabreyttra matvæla. Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessara reglugerðar sé framfylgt vegna erfðabreytts fóðurs. Þegar sannreyna þarf efnainnihald matvæla og fóðurs skal Matvælastofnun sjá um að rannsóknir séu framkvæmdar. Matvælastofnun skal samræma eftirlit með erfðabreyttum matvælum þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu, sbr. 7. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli“.

Eftirlit með merkingum á erfðabreyttum matvælum felst í að skoða umbúðir og önnur gögn, ásamt því að greina sýni og athuga hvort merking sé í samræmi við innihald og uppfylli þar með ákvæði reglugerðarinnar. Skipulagðar sýnatökur munu eiga sér stað á hverju ári og mun Matvælastofnun vinna að samræmingu þess eftirlits hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, setja upp sýnatökuáætlun og ákveða hvaða sýni verða tekin hverju sinni. Það ákvarðast m.a. af upprunalandi, algengi á markaði, markhópi vöru og gerð matvæla, þ.e. hvort þau innihaldi algengar erfðabreyttar lífverur.

Á árinu 2012 verður lögð áhersla á innihaldsefni eins og maís og soja. Matís mun rannsaka hvort erfðabreytingar séu til staðar í matvælunum með því að nota vottaðar aðferðir. Vinna við uppsetningu á þessum aðferðum er langt komin og verður fljótlega hægt að byrja að greina sýni. Því er mikilvægt að stjórnendur matvælafyrirtækja gangi nú þegar úr skugga um uppruna og eðli hráefna, því nokkurn tíma tekur að afla upplýsinga og breyta merkingu vöru. Óháð framangreindri sýnatökuáætlun og ef upp kemur grunur um að matvæli geti verið erfðabreytt, þá geta eftirlitsaðilar tekið sýni til greiningar þegar þurfa þykir.

Hafa ber í huga að þegar talað er um erfðabreytt matvæli er ekki aðeins átt við matvæli sem innihalda erfðaefni úr erfðabreyttri lífveru, heldur einnig öll innihaldsefni sem unnin eru úr lífverunni, jafnvel þótt ekkert erfðaefni sé til staðar. Dæmi um þessi innihaldsefni eru olíur, lesitín, sterkja, glúkósi og glúkósasýróp. Ekki er hægt að nota greiningar til að skera úr um hvort þessi matvæli eða efnisþættir séu erfðabreytt eða ekki og því skal nota rekjanleikaákvæði reglugerðarinnar til að skera úr um það.

Í reglugerðinni segir m.a.: „Ef upp kemur rökstuddur grunur um að matvæli eða fóður, sem ekki eru merkt samkvæmt reglugerð þessari, innihaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum ber matvæla- eða fóðurfyrirtæki að leggja fram gögn því til staðfestingar að hvorki matvælin né fóðrið innhaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum. Matvæla- eða fóðurfyrirtæki skulu þannig leggja fram gögn um feril varanna eða niðurstöður greininga sem sýna fram á að hvorki matvælin né fóðrið innihaldi erfðabreyttar lífverur eða sé framleitt úr erfðabreyttum lífverum“. Til viðbótar þessum upplýsingaákvæðum fjallar reglugerðin um almennar skyldur matvælafyrirtækja til að merkja erfðabreytt matvæli og uppfylla rekjanleikaákvæði til staðfestingar á réttum merkingum.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?