Fara í efni

Meðhöndlun sjávarfangs

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú þegar hrogn og lifur eru komin á matseðilinn vill Matvælastofnun minna á mikilvægi góðrar meðhöndlunar sjávarafurða.

Nokkur atriði sem hafa ber í huga við veiðar og vinnslu:

 • Gera skal að afla eins fljótt og kostur er.  
 • Blóðga skal fisk þegar hann er dreginn um borð og láta blæða í ísbaði (rennandi vatni/sjó).
 • Slæging skal fara fram að lokinni blóðgun.
 • Þá hluta aflans,  sem ætlaðir eru til manneldis,  skal þvo vandlega og aðskilja frá óætum hlutum.
 • Kæla skal afurðirnar;  fisk, hrogn og lifur, sem næst hitastigi bráðnandi íss með ísun,  eða frysta.
 • Verja skal allar afurðir fyrir veðri og vindum.
 • Eigi að nýta hrogn og lifur til manneldis skal flokka afurðir  eftir fisktegund.

Til að tryggja sem best gæði hrogna og lifrar skal: 

 • Vanda slægingu, svo hrogn og lifur séu eins heil og kostur er.
 • Varast að rjúfa himnuna sem myndar hrognasekkinn og ver hrognin.
 • Varast  að láta meltingarensím s.s. gall leika um afurðirnar.
 • Nota minni ílát svo komist verði hjá því að hrognasekkurinn gefi sig undan þrýstingi.  
 • Nota krapa til kælingar.

Þorskhrogn geta verið allt að 20% þyngdar fisksins og eru mjög verðmæt, sé ferskleiki hráefnisins  varðveittur.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun benda á að hrogn og lifur skulu ætið flokkuð eftir fisktegund og merkt þannig.  Að selja ýsuhrogn sem þorskhrogn er brot á lögum um matvæli.  

Á vefsíðunni www.sjavarutvegur.is  má finna rafbók Valdimars Inga Gunnarssonar, „Meðhöndlun á fiski um borð í fiskiskipum“ er að finna ýmsan fróðleik um aflameðferð og er þar sérstakur kafli um bolfiskhrogn og lifur.

Á Kæligátt Matís má einnig finna ógrynni upplýsinga um aflameðferð.


Getum við bætt efni síðunnar?