Fara í efni

Meðferð hrogna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú í byrjun hrognavertíðar vill Matvælastofnun minna á mikilvægi góðrar meðhöndlunar fisks og fiskafurða.

Allir aðilar sem koma að meðferð og dreifingu matvæla eru ábyrgir fyrir réttri meðferð sem tryggir öryggi og gæði matvæla. Við meðhöndlun hrogna er mikilvægast að rétt sé staðið að meðferð og frágangi við slægingu um borð í skipum eða slægingarstöð.

Halda skal mismunandi tegundum aðskildum ef selja á hrogn undir fisktegundaheiti. Ef hrogn eru seld sem þorskhrogn (Gadus morhua) eiga það að vera hrogn úr þorski. Ef tegundum er blandað saman skal merkja þau sem blönduð hrogn og tilgreina tegundir. Annað er blekkjandi fyrir kaupendur. Skv. 11. grein laga nr. 93/1995 um matvæli er óheimilt er að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig að þau blekki kaupanda að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif. Einnig er bent á að reglugerð nr. 1379/2013  um markaðssetningu fisks og fiskafurða (common marked regulation (CMO)) er í gildi í Evrópu og verða fyrirtæki sem setja fiskafurðir á markað í Evrópu að merkja þær í samræmi við kröfur hennar.

Nokkur atriði sem hafa ber í huga við veiðar og vinnslu skv. reglugerð EB/853/2004 viðauki III, VIII. þáttur (Ísl. nr. 104/2010):

  • Gera skal að afla eins fljótt og kostur er 
  • Blóðga skal fisk þegar hann er dreginn um borð og láta blæða í ísbaði (rennandi vatni/sjó)
  • Slæging skal fara fram að lokinni blóðgun
  • Þvo skal fisk að lokinni blóðgun þannig að tryggt sé að allar innyflaleifar séu fjarlægðar
  • Þeir hlutar innyfla s.s hrogn og lifur, sem ætlaðir eru til manneldis, skal þvo vandlega þannig að tryggt sé að að allar leifar innyfla séu fjarlægðar 
  • Fjarlægja alla aðskotahluti s.s. öngla og spotta
  • Kæla skal afurðirnar; fisk, hrogn og lifur, sem næst hitastigi bráðnandi íss með ísun, eða frysta
  • Verja skal allar afurðir fyrir óhreinindum, veðri, vindum og ágangi fugla
  • Eigi að nýta hrogn og lifur til manneldis skal flokka afurðir eftir fisktegund

Til að tryggja sem best gæði hrogna og lifrar skal: 

  • Vanda slægingu, svo hrogn og lifur séu eins heil og kostur er
  • Varast að rjúfa himnuna sem myndar hrognasekkinn og ver hrognin
  • Varast  að láta meltingarensím s.s. gall leika um afurðirnar
  • Varast að nota svo stór ílát að hrognasekkurinn gefi sig undan þrýstingi 
  • Nota krapa til kælingar

Á vefsíðunni www.sjavarutvegur.is  má finna rafbók Valdimars Inga Gunnarssonar, „Meðhöndlun á fiski um borð í fiskiskipum“.  Í bókinni er ýmis fróðleikur um aflameðferð og er þar sérstakur kafli um bolfiskhrogn og lifur.

Á vefsíðu Matís, Kæligátt, má einnig finna ógrynni upplýsinga um aflameðferð.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?