Fara í efni

Matvælastofnun 10 ára - þróun og framtíð eftirlits

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun fagnar 10 ára starfsafmæli sínu á árinu. Í tilefni þess boðar stofnunin til opins fundar um þróun og framtíð eftirlits föstudaginn 23. nóvember kl. 10-15 á Grand Hótel Reykjavík. Á fundinum verður horft yfir farinn veg, reynslu og ávinning eftirlits á síðustu 10 árum og litið til framtíðar, með áherslu á birtingu niðurstaðna eftirlits til neytenda.

Broskarlakerfi

Til stendur að birta opinberlega frammistöðu allra matvælafyrirtækja á Íslandi frá 1. janúar 2021. Það er ráðherra að ákveða með hvaða hætti frammistaðan verður birt og hvort eftirlitsskýrslur fylgi með. Matvælastofnun hefur flokkað matvælafyrirtæki undir eftirliti stofnunarinnar eftir frammistöðu með A,B,C einkunnarkerfi frá árinu 2013 og verður eftirlitskerfið kynnt á fundinum.

Einn frummælenda er Tina Lundsgaard Falk frá dönsku matvælastofnuninni. Hún mun fjalla um broskarlakerfi og dýravelferðarmerki Dana og reynslu þeirra af birtingu frammistöðu fyrirtækja til neytenda.

Opnun markaða

Á fundinum munu fulltrúar frá EFTA og ESA, eftirlitsstofnun EFTA, greina frá mikilvægi eftirlits fyrir Ísland í hinum stóra heimi og hvernig eftirliti með eftirlitinu er háttað. Fjallað verður um opnun erlendra markaða fyrir íslenskar afurðir.

10 ár Matvælastofnunar

Frá því að Matvælastofnun hóf störf árið 2008 hefur umfang starfseminnar aukist jafnt og þétt með stöðugum flutningi verkefna til stofnunarinnar. Má þar nefna eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurbúum, eftirlit skoðunarstofa í sjávarútvegi, eftirlit með dýravelferð og búfjáreftirlit, eftirlit með fiskeldi og flutningur búnaðarmála til Matvælastofnunar. Starfsfólki hefur fjölgað úr um 70 í yfir 90 á sama tímabili. Á fundinum munu stjórnendur Matvælastofnunar fara yfir reynslu síðustu 10 ára, áskoranir og ávinning.

Opinn fundur

Fundinum lýkur með erindi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnu stjórnvalda. Fundarstjóri er Friðrika Hjördís Geirsdóttir, fjölmiðlakona.

Um opinn fund er að ræða og eru allir velkomnir. Fundurinn verður á íslensku en erindi um broskarlakerfi Dana á ensku. Skráning fer fram á netfanginu mast@mast.is og er opið fyrir skráningar til og með 20. nóvember. Tilgreinið nafn, fyrirtæki/stofnun/samtök og netfang við skráningu. Fundurinn er þátttakendum að kostnaðarlausu. 


Getum við bætt efni síðunnar?