Fara í efni

MAST og dýravelferð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og kunnugt er er Matvælastofnun (MAST) opinber eftirlitsaðili með dýravelferð á Íslandi. Nokkuð hefur verið deilt á MAST undanfarið og hafa sumir sakað stofnunina um að fara offari í þessum málum á meðan aðrir hafa gagnrýnt hana fyrir slæleg vinnubrögð. Forstjóri og yfirstjórn stofnunarinnar hafa svarað þessu ágætlega í fjölmiðlum. MAST er auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni en umræða á t.d. samfélagsmiðlum hefur stundum farið langt út yfir öll mörk og oft byggst á vanþekkingu.

Hafa ber í huga að hér er um mjög viðkvæman málaflokk að ræða og að í aðgerðum sínum er MAST bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf og vandaða rannsókn áður en ákvarðanir eru teknar. Í alvarlegustu málunum getur stofnunin þó þurft að bregðast hart við.

Til frekari útskýringar eru settar fram hér fyrir neðan nokkrar algengar spurningar og fullyrðingar um þetta efni og svör við þeim.

Fyrst er þó rétt að nefna þau tvenn úrræði sem dýravelferðarlöggjöfin hefur veitt MAST til að takast á við þá sem brjóta gegn þeim dýrum sem þeir hafa umráð yfir. Annars vegar er um að ræða svonefndar þvingunaraðgerðir og hins vegar refsingar fyrir fullframin brot.

Þvingunaraðgerðir eru t.d. álagning dagsekta sem hafa reynst árangursríkar. Einnig má nefna að stofnunin hefur heimild til að vinna úrbætur á kostnað umráðamanns dýra. Alvarlegasta þvingunarúrræðið er síðan vörslusvipting. Reynsla okkar hjá MAST er sú að dagsektir hafa reynst mjög vel til að knýja fram úrbætur en stundum eru mál það alvarleg að vörslusvipting er eina leiðin.

Refsingar eru svonefndar stjórnvaldssektir sem MAST getur lagt á fyrir fullframin brot. Þessar sektir geta numið allt að einni milljón króna. Allra alvarlegustu málin eru þó kærð til lögreglu í stað þess að MAST beiti stjórnvaldssektum. Slík mál geta endað með refsidómi.

MAST getur ekki bannað fólki að halda dýr nema þá tímabundið á meðan mál eru til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum. Dómstólar geta í alvarlegustu málunum svipt fólk með dómi heimild til að halda dýr tiltekið tímabil eða ævilangt.

Áður en MAST hefst handa þarf að stofnunin að boða aðgerðir fyrirfram og veita umráðamönnum dýra andmælarétt áður en endanleg ákvörðun er tekin. MAST er þó heimilt að sleppa því í allra alvarlegustu málunum þegar brýn þörf er á aðgerðum.

Af hverju fá þeir sem senda inn ábendingar til MAST ekki að fá að vita hver niðurstaðan var?

MAST fær ábendingar á hverjum degi um meinta slæma meðferð á dýrum. Snýr það einkum að gæludýrum og hrossum sem eru oft fyrir allra augum. Þessar ábendingar eru mjög mikilvægar í eftirliti MAST og hver einasta ábending er tekin til rannsóknar. Stofnunin er þakklát fyrir þessar ábendingar.

Ef hins vegar ábendingin leiðir til þess að MAST þarf að taka ákvörðun í málinu um t.d. þvingunaraðgerðir þá er stofnað svokallað stjórnvaldsmál. Aðilar að því eru einungis tveir, þ.e. MAST og umráðamaður dýrsins. Sá sem sendi inn ábendinguna er ekki aðili að málinu. Hann getur hins vegar eins og hver annar kallað eftir upplýsingum um afdrif málsins en stundum getur orðið erfitt fyrir MAST að bregðast við slíku. Ástæðan er sú að bæði stjórnsýslulög og persónuverndarlög takmarka heimildir MAST til að upplýsa um einkamálefni fólks og getur íslenska ríkið orðið bótaskylt ef stofnanir þess ganga of langt í upplýsingagjöf sinni. Sérstaklega er tekið fram í persónuverndarlögum að stjórnvöldum sé óheimilt sé að miðla upplýsingum um refsiverða háttsemi.

Af hverju gengur MAST ekki harðar fram í dýravelferðarmálum?

MAST gengur eins hart fram og þörf er á en skv. stjórnsýslulögum ber stofnuninni að gæta meðalhófs. Það merkir að MAST ber að velja vægasta úrræðið hverju sinni sem talið er duga til að ná því markmiði sem stefnt er að. Sömuleiðis er oft beitt vægum úrræðum í byrjun en þunginn eykst ef ekki er bætt úr og getur endað með vörslusviptingu. Í mjög alvarlegum málum getur stofnunin hins vegar farið beint í vörslusviptingu ef ljóst er frá byrjun að önnur úrræði eru gagnslaus eða í þeim tilvikum þar sem úrbætur þola ekki bið.

Af hverju eru dýrin ekki látin njóta vafans?

Þessi spurning hefur verið borin fram án þess að skýrt sé hvað átt er nákvæmlega við. Hún á frekar illa við þegar MAST er að leggja á stjórnvaldssektir. Hér ber að hafa í huga að samkvæmt íslensku réttarfari njóta sakborningar (í þessu tilviki dýraeigendur) vafans. Allan vafa ber að túlka sakborningi í hag og MAST er ekki heimilt að leggja á slíka sekt nema sök teljist sönnuð. Þetta orðalag er því frekar óheppilegt.

Það kann hins vegar að vera að með þessu orðalagi sé átt við að grunur um brot á dýravelferð eigi að leiða strax til rannsóknar MAST og eftir atvikum þvingunarúrræða og jafnvel refsinga í framhaldi af því ef rannsókn leiðir lögbrot í ljós. Í þessum skilningi njóta dýr ávallt vafans hjá MAST.

Bregst MAST of seint við í dýravelferðarmálum? Er MAST að standa sig?

Það liggur fyrir á á árunum 2016 til 2022 sendi MAST 28 stjórnvaldssektir til innheimtu, kærði 13 mál til lögreglu, sendi umráðamönnum dýra 26 viðvaranir, lagði á dagsektir í yfir 100 skipti og fór í samtals 19 vörslusviptingar. MAST hefur því töluvert umleikis á þessu sviði.

Einar Örn Thorlacius

lögfræðingur dýravelferðar hjá MAST

Fréttin birtist á blaðsíðu 57 í Bændablaðinu í dag, fimmtudaginn 9. mars 2023.


Getum við bætt efni síðunnar?