Fara í efni

Málþing um nýsamþykkt lög um dýravelferð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Alþingi hefur samþykk tvenn ný heildarlög sem snerta meðferð og lífsskilyrði dýra hér á landi. Annars vegar er um að ræða lög um velferð dýra og hins vegar lög um búfjárhald. Fyrri lögin taka við af lögum nr. 15/1994, um dýravernd og hin síðarnefndu taka við af lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

Einfaldari stjórnsýsla

Með þessum nýju lögum er öll stjórnsýsla í þessum málaflokki saman komin undir einu ráðuneyti; atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og hjá einni stofnun; Matvælastofnun en var áður undir tveimur ráðuneytum og hjá tveimur stofnunum. Dýraverndin sem slík var þá undir umhverfisráðuneytinu og hjá Umhverfisstofnun en búfjárhaldið hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (áður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti) og hjá Matvælastofnun. Dýraverndarlögin tóku til dýraverndarinnar sem slíkrar en allt það er varðaði meðferð búfjár o.þ.h. heyrði undir lögin um búfjárhald o.fl. Þessi tvískipting hafði í för með sér óhagræði varðandi framkvæmd laganna sem dró úr skilvirkni og kom niður á skjólstæðingunum sem í hlut áttu það er dýrunum sjálfum.  

Viðamikill undirbúningur

Lagasetningin hefur átt sér töluverðan aðdraganda en þegar í apríl 2008 hóf nefnd skipuð af þáverandi umhverfisráðherra störf við endurskoðun á dýraverndarlögunum. Á árinu 2009 náðist samstaða innan nefndarinnar og á milli ráðuneyta og stofnana sem í hlut áttu, að leggja til heildaruppstokkun og samræmingu á stjórnsýslu í málaflokknum. Einnig að ráðist yrði í ritun á frumvarpi til nýrra heildarlaga í málaflokknum. Fluttist þá formennska nefndarinnar yfir til fulltrúa þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis auk þess sem fjölgað var í nefndinni. Nefnd þessi gekk frá tillögu að lagafrumvörpunum og skilaði þeim af sér með formlegum hætti til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra í júní 2011. Tillögurnar vor sendar til álitsumleitunar um sumarið og settar til kynningar á vef  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ýmsar athugasemdir bárust og var tekið tillit til sumra þeirra við endanlegan frágang frumvarpanna í ráðuneytinu. Frumvörpin voru því næst lögð fram á 140. löggjafarþingi en náðu þá ekki fram að ganga. Frumvörpin voru síðan lögð fram að nýju á 141. löggjafarþingi lítillega breytt en tekið var m.a. tillit til ákveðinna atriða sem fram komu í almennri umræðu samhliða framlagningu þeirra í fyrra sinnið og urðu þau að lögum á síðustu starfsdögum þingsins í mars sl. eins og fyrr segir.

Fyrirmynd sótt til Noregs

Við samningu frumvarps til laga þessara var víða leitað fanga. Þannig kynnti nefndin sér löggjöf nágrannaþjóðanna í þessum málaflokki auk þess sem samræmis er gætt, eftir því sem við á, við reglur Evrópusambandsins á þessu sviði. Einkum var  þó stuðst við nýlega löggjöf Norðmanna. Í lögunum er heiti málaflokksins breytt. Hætt verður að tala um dýravernd og þess í stað er talað um dýravelferð. Lögin fjalla þannig um velferð dýra í stað hugtaksins dýraverndar sem notað var áður. Orðið dýravernd er að sönnu gamalt og gott orð í íslensku máli en eigi að síður eru sterk rök fyrir þessari breytingu. Þau helstu eru að hugtakið velferð dýra lýsir betur efnisinntaki laganna en hugtakið dýravernd gerir. Hinum nýju lögum er m.a. ætlað að taka á fjölmörgum efnisatriðum sem nú er að finna í lögum um búfjárhald. Gildissviðið er þannig orðið víðfeðmara en var í eldri lögunum. Margt kemur nýtt inn sem er meira á sviði meðferðar búfjár og fjallar þar með um velferð þess og annarra dýra í umsjá manna, frekar en einvörðungu vernd gegn því að ekki sé farið illa með dýr. Þessu til viðbótar ber orðið á að margir leggi hliðstæðan skilning í hugtökin dýravernd og náttúruvernd og telja því að hér sé um að ræða verndun villtra dýra eða vernd dýrastofna, t.d. gegn útrýmingu. Velferðarhugtakið er hins vegar víðtækara og felur ekki aðeins í sér að vernda stofna eða hópa dýra heldur að hugað sé að velferð einstakra dýra. Þessi skilningur er og í samræmi við þá þróun sem hefur orðið hjá öðrum siðuðum þjóðum en þar er greint á milli verndunar dýra í skilningi náttúruverndar og svo velferðar dýra hvað varðar líðan þeirra, umönnun og aðbúnað.

Samkvæmt þessari nýju og heildstæðu löggjöf mun eins og fyrr segir eitt ráðuneyti; atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fara með forsjá löggjafarinnar og ein stofnun, Matvælastofnun fara með framkvæmd málaflokksins en mikil fagþekking á dýravelferð er til staðar hjá þeirri stofnun. Samhliða verða störf búfjáreftirlitsmanna flutt frá sveitarfélögunum til Matvælastofnunar en hlutverk þeirra er að stærstum hluta eftirlit með velferð búfjár. Þessu fylgir hagræði og aukin skilvirkni í eftirlitinu, ekki er þó gert ráð fyrir að starfsgengisskilyrðum búfjáreftirlitsmanna verði breytt frá því sem nú er vegna þessa.

Fjölmargar nýjungar

Helstu nýmæli í lagafrumvarpinu, auk tilflutnings verkefna sem þegar er getið, er að í stað núverandi Dýraverndarráðs verður sett á laggirnar sérstakt fagráð um dýravelferð sem hafi aðsetur hjá Matvælastofnun og fer yfirdýralæknir með formennsku í fagráðinu. Þetta mun styrkja starfsemi Matvælastofnunar á fagsviðinu og samhæfa og einfalda stjórnsýsluna, m.a. með því að gert er ráð fyrir að fagráðið taki við því starfi sem nú fer fram í tilraunadýranefnd. Þessi atriði öll eiga að tryggja það markmið sem sett var að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar verði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd. Þessu höfuðmarkmiði til viðbótar kemur að í lagafrumvarpinu er gert ráð fyrir miklum breytingum bæði á þvingunarúrræðum þegar pottur er brotinn gagnvart velferð dýra og eins að heimila að beitt verði stjórnvaldssektum. Skýrleiki refsiheimilda hefur einnig verið stóraukinn.

Fjölmargar nýjungar eru í lögunum varðandi efnisákvæði þeirra, bæði varðandi almenn ákvæði um meðferð dýra og meðhöndlun þeirra og um aðbúnað og umhverfi dýra. Þannig er hnykkt á þeirri skyldu að fara vel með dýr. Í lögunum er, eftir því sem við á, litið til velferðar allra dýra sem gildissvið frumvarpsins nær til, hvort sem er búfé í matvælaframleiðslu eða í annarri þjónustu við manninn, þ.e. nytja og sýningadýr, gæludýr eða jafnvel meindýr. Ákvæði um föngun gæludýra sem sloppið hafa laus eru mjög skýrð frá því sem var í eldri löggjöf og hvað varðar meindýr beinast efnisákvæði frumvarpsins að því að þessum dýrum sé eytt með mannúðlegum hætti og sjálfsagðri fagmennsku beitt við þann verknað. Skylda til einstaklingsmerkinga er einnig aukin sem hefur mikið hagræði í för með sér þegar dýr eru handsömuð og koma þarf þeim til umráðamanns síns.

Samhliða þeirri heildarlagasetningu sem hér hefur verið gerð skil var breytt viðeigandi ákvæðum í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998 en nú er til að mynda heimilt að aðrir heilbrigðisstarfsmenn dýra en einungis dýralæknar hafi ákveðin verk með höndum. Lagaskila við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, er jafnframt gætt.

Á fjölmargt fleira mætti minnast varðandi þessi nýju heildarlög en hér verður látið staðar numið en þess jafnframt getið að fimmtudaginn 16. maí nk. mun verða efnt til kynningarráðstefnu um þessi nýju heildarlög og verður hún auglýst nánar með dagskrá er nær dregur. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?