Fara í efni

Mælingar á histamín í makríl

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Veiðar á makríl hafa farið ört vaxandi á síðustu árum og mikill verðmæti liggja í því að vinna hann í meira magni til manneldis. Það er þó eitt sem sérstaklega mikilvægt er að hafa í huga við veiðar og vinnslu á makríl, en það er að kæling sé mjög góð. Makríll er ein af þeim fisktegundum sem innihalda töluvert magn af amínósýrunni histidín. Við vöxt ákveðinna örvera er þessi amínósýra brotin niður og getur myndar efni sem kallast histamín. Við neyslu á fisk sem inniheldur mikið af histamíni geta komið fram ákveðin eitrunaráhrif s.s. roði í húð, höfuðverkur, ógleði og kviðverkir. 

Það er því mikilvægt við vinnslu og veiðar á makríl að tekið sé tillit til þess og sérstaklega hugað að kælingu afla og afurða. Framleiðendur skulu einnig koma sér upp vöktunarkerfi/sýnatöku til að sýna fram á að magn histamíns í afurðum sé undir viðmiðunarmörkum skv. reglugerð 135/2010.

Matvælastofnun hefur líka skyldum að gegna þegar kemur að mælingum á histamíni í afurðum. Í sumar hafa verið tekin sýni af eftirlitsmönnum Matvælastofnunar sem send voru til Matís ohf. til mælinga. Í reglugerð EU/2073/2005 sem innleidd er með reglugerð nr.135/2010 er lýst hvernig sýnataka skuli fara fram. Eitt sýni samanstendur í raun af 9 undirsýnum, af þessum 9 undirsýnum mega 2 innihalda histamín á bilinu 100-200 mg/kg.

Matvælastofnun tók 3 sýni í sumar, þ.e. 27 undirsýni. Það er skemmst frá því að segja að öll þessi 27 undirsýni voru undir greiningarmörkum mæliaðferðarinnar þ.e. magn histamíns var minna en 5 mg/kg. Þetta eru jákvæðar fréttir og gefa vísbendingu að þær vinnsluaðferðir sem notaðar eru hér á landi komi í veg fyrir myndun histamíns í þessum afurðum. Góð þrif eru einnig mikilvæg í þessu samhengi. Matvælastofnun stefnir á að taka sýni úr síld á haustmánuðum, en síld getur einnig myndað histamín ef meðhöndlun afla og afurða er ekki í lagi.


Getum við bætt efni síðunnar?