Fara í efni

Leyfi til útflutnings dýraafurða til Rússlands

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur sent öllum fyrirtækjum sem hafa útflutningsleyfi og þeim sem hafa sótt um að fá útflutningsleyfi fyrir fisk-, kjöt- og mjólkurafurðir bréf og áréttað helstu niðurstöður úr eftirlitsheimsókn sérfræðinga Tollabandalags Rússlands, Hvíta Rússlands og Kasakstan til Íslands í nóvember síðastliðnum.

Í bréfinu óskar Matvælastofnun eftir því að öll fyrirtæki sem þegar hafa útflutningsleyfi til Tollabandalagsins og þau sem hafa sótt um útflutningsleyfi sendi stofnuninni upplýsingar um hvort þau vilji hafa / fá útflutningsleyfi til Tollabandalagsins og fyrir hvaða afurðir. Fyrirtæki sem höfðu sent þessar upplýsingar fyrir heimsókn sérfræðinga Tollabandalagsins þurfa að staðfesta að engar breytingar hafi orðið og að þau vilji hafa eða fá útflutningsleyfi.

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu stofnunarinnar og sent fyrirtækjunum yfirlit yfir helstu löggjöf Tollabandalagsins varðandi útflutning matvæla þangað, því þau þurfa að kynna sér kröfur varðandi framleiðslu á afurðum sem fluttar verða til Tollabandalagsins.

Matvælastofnun hyggst á næstu mánuðum hefja úttektir miðað við kröfur Tollabandalagsins á matvælafyrirtækjum sem hafa útflutningsleyfi og á þeim fyrirtækjum sem hafa sótt um að fá leyfi til útflutnings til Tollabandalagsins. Mikilvægt er að öll fyrirtæki sem hyggjast flytja út afurðir til Tollabandalagsins kynni sér kröfur sem það gerir varðandi framleiðslu á afurðunum.

Endanleg skýrsla frá Tollabandalaginu um eftirlitsheimsóknina mun liggja fyrir tveimur til fjórum mánuðum eftir að henni lauk.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?