Fara í efni

Leiðréttingar vegna umfjöllunar um aflífun graðhesta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun telur nauðsynlegt að leiðrétta fréttaflutning á forsíðu Fréttablaðsins og á Vísi.is um aflífun hrossa í Hörgársveit. Fréttaflutning má skilja þannig að umrædd hross hafi eftir aflífun komist langar vegalengdir frá aflífunarstað, að Matvælastofnun hafi unnið í andstöðu við reglugerð um velferð hrossa og hafi tekið hrossin í sína vörslu og þ.a.l. verið ábyrg fyrir flutningi hræjanna. Þarna er ekki rétt farið með og telur Matvælastofnun nauðsynlegt að koma réttum upplýsingum á framfæri.

  • Í fréttaflutningi þar sem vísað er í ummæli héraðsdýralæknis um að hrossin hafi drepist samstundis er í framhaldinu tekið fram að „af myndum að dæma hafa tveir graðhestarnir samt sem áður borist nokkuð langa leið frá gerðinu fyrir framan hesthúsið“. Hið rétta er að hræin voru strax eftir aflífun flutt úr augsýn frá þjóðvegi og þeirra hesta sem átti eftir að aflífa.
  • Hestarnir voru aflífaðir með réttum hætti og voru blóðgaðir á staðnum af dýralækni. Þeir ráfuðu ekki burt eftir að hafa verið skotnir. 
  • Ekki var hægt að nota þær aðferðir sem kveðið er á um í reglugerð um velferð hrossa til að aflífa dýrin, þar sem hún krefst mikillar nákvæmni. Þarna var um mikið slasaða, ótamda graðhesta að ræða, sem dýralæknir úrskurðaði að þyrfti að aflífa. Því var notuð sú aflífunaraðferð sem þótti best m.t.t. velferðar hrossanna, í samráði við eigendur þeirra. 
  • Matvælastofnun ítrekar að umrædd aflífun hrossa með bógskoti var í fullu samræmi við lög og reglur um velferð dýra. Samkvæmt reglugerð um velferð hrossa er skylt að aflífa alvarlega veik og/eða slösuð hross eins fljótt og auðið er, ef meðhöndlun er ekki möguleg. Þá skal aflífun fara fram með skjótum og sársaukalausum hætti. 
  • Í lögum er jafnframt kveðið á um að dýr skuli aflífuð án þess að önnur dýr verði þess vör, eftir því sem unnt er og að forðast skuli að valda dýrum óþarfa þjáningum og hræðslu. Alls þessa var gætt við aflífun á þessum hrossum.
  • Fréttaflutning má jafnframt skilja þannig að það hafi verið á ábyrgð Matvælastofnunar að fjarlægja hræin vegna vörslusviptingar hrossanna. Hið rétta er að engin vörslusvipting átti sé stað af hálfu Matvælastofnunar.
  • Það er ekki á forræði eða ábyrgð Matvælastofnunar að fjarlægja hræ af jörðum bænda og var flutningur og förgun þeirra alfarið á ábyrgð eigenda. Hefur þeim nú verið komið í hrægám sveitarfélagsins. 
  • Helsta markmið Matvælastofnunar með aðkomu að þessu máli var að koma slösuðum dýrum og eigendum þeirra til hjálpar og bregðast við þeim aðstæðum sem fyrir voru. 

Getum við bætt efni síðunnar?