Fara í efni

Kúariða og hagsmunir íslensks landbúnaðar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kúariða er banvænn sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Sjúkdómurinn er langvinnur og einkennin koma að jafnaði ekki fram fyrr en um 5 ára aldur. Engin meðhöndlun eða bólusetning finnst gegn sjúkdómnum. Einkenni kúariðu minna að mörgu leyti á einkenni riðuveiki hjá sauðfé, þ.e.a.s. taugaeinkenni sem birtast í hegðunarbreytingum og erfiðleikum við hreyfingu.

Talið er að sjúkdómurinn geti borist  í nautgripi ef þeir eru fóðraðir á dýrafóðri, framleitt úr leifum sýktra nautgripa. Fyrsta tilfellið af kúariðu var staðfest í Bretlandi árið 1986. Síðan þá hefur sjúkdómurinn verið staðfestur í fleiri Evrópulöndum, Asíu, Miðausturlöndum og í Norður-Ameríku.

Vísbendingar eru um að tilbrigði kúariðunnar, banvæni hrörnunarsjúkdómurinn Creutzfeldt-Jakob sem leggst á fólk, geti stafað af neyslu sýkts taugavefs eða nautakjöts sem hefur komist í snertingu við sýktan taugavef.

Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin (OIE) hefur viðurkennt Ísland sem kúariðulaust land á sögulegum forsendum. Þar vegur þyngst að  kúariða hefur aldrei greinst hér á landi, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl  síðan 1968 og óheimilt er að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli síðan 1978. Þessi alþjóðlega viðurkenning er afar mikilvæg fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og heilnæmi íslensks landbúnaðar. Til þess að Ísland geti viðhaldið þessari stöðu sinni hjá OIE, þarf ákveðinn fjöldi heilasýna úr nautgripum að berast árlega til riðuskimunar.

Fram til þessa hafa sýni skilað sér illa til rannsókna og nú er yfirvofandi hætta á að Ísland missi stöðu sína sem kúariðulaust land.

Ísland verður árlega að sýna fram á tilskilinn fjölda sýna til skimunar, sbr. reglugerð nr. 999/2001 um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar. Taka skal sýni úr eftirfarandi flokkum nautgripa:

·       Allir gripir eldri en 24 mánaða sem er slátrað í neyð.

·       Allir gripir eldri en 24 mánaða sem eftirfarandi hefur komið fram við skoðun fyrir slátrun:

o     þreyta eða óróleiki,

o     grunur eða staðfesting á smitsjúkdómi sem getur borist í fólk eða dýr,

o     grunur eða staðfesting á sjúkdómi eða einhvers konar röskun sem getur leitt til að kjötið sé óhæft til manneldis.

·       Allir gripir eldri en 30 mánaða sem

o     slátrað er til manneldis,

o     slátrað er vegna útrýmingar á sjúkdómi en sýna ekki klínisk einkenni.

·       Allir gripir eldri en 24 mánaða sem hafa drepist eða verið lógað vegna annars en

o     niðurskurðar vegna farsóttar, t.d. gin- og klaufaveiki

o     slátrunar til manneldis

 
Bestu vísbendingu um heilsufar nautgripa á Íslandi hvað kúariðu varðar, gefa sýni úr grunsamlegum tilfellum, þ.e.a.s. fullorðnum gripum sem drepast heima á bæ eða er lógað vegna sjúkdóma eða slysa.

Matvælastofnun óskar eftir samstarfi við nautgripabændur við að tryggja þessa miklu hagsmuni landsins, með því að leggja til sýni úr fullorðnum nautgripum sem drepast eða er slátrað heima. Bændur snúa sér þá til síns héraðsdýralæknis og í samráði við þá er tekin ákvörðun hvort eftirlitsdýralæknir frá Matvælastofnun taki sýnin, dýralæknir viðkomandi bús eða bóndinn sjálfur. Í öllum tilfellum er sýnatakan bændum að kostnaðarlausu.

Leiðbeiningar um sýnatöku er hægt að nálgast á vef Landssambands kúabænda.


Getum við bætt efni síðunnar?