Fara í efni

Kóprabjalla í Robur gæludýrafóðri

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Um miðjan janúar fékk Matvælastofnun kvörtun frá kaupanda Robur gæludýrafóðurs um að í því væru bæði lifandi lirfur og bjöllur. Hafði hann orðið var við þessi skordýr í samskonar fóðri bæði í nóvember 2011 og janúar 2012. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að sýni af skordýrunum höfðu verið send Náttúrufræðistofnun sem greindi þau til tegundarinnar kóprabjalla (Necrobia rufipes). 

Tvö fyrirtæki flytja inn Robur gæludýrafóður en það eru Dýralíf og Aflmark. Skordýrin hafa einungis fundist í fóðri frá Dýralíf í tegundunum „maintainance“ og „performance“. Matvælastofnun hefur beint þeim fyrirmælum til þessara fyrirtækja að taka þessar fóðurtegundir úr sölu og innkalla þær.

Roburfóðrið er framleitt í Svíþjóð og hefur Matvælastofnun haft samband við sænska fóðureftirlitið vegna málsins og mun það grípa til viðeigandi ráðstafana. Þetta fóður á að vera framleitt við þannig aðstæður og hitað nægjanlega til að fyrirbyggja að líf fái þrifist í því.

Af þessu tilefni beinir Matvælastofnun því til innflytjenda og notenda gæludýrafóðurs að tilkynna stofnuninni þegar í stað komi upp tilvik sem þessi. Kaupendur gallaðs fóðurs eru beðnir um að skila því til seljanda.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?