Fara í efni

Könnun á viðhorfi Evrópubúa til matvælaöryggis

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gert könnun á viðhorfi Evrópubúa til matvælaöryggis.

Niðurstöðurnar sýna að meirihluti Evrópubúa er meðvitaður um matvælaöryggi og tveir þriðju neytenda hafa breytt sínum neysluvenjum vegna upplýsinga sem þeir hafa fengið um matvælaöryggi. Tveir af fimm lýsa persónulegum áhuga á matvælaöryggi og einn af fimm segir það vera þeirra helsta forsenda við kaup á matvælum. 

Það sem flestir Evrópubúar horfa fyrst og fremst til við kaup á matvælum er uppruni (53%), verð (51%), matvælaöryggi (50%) og bragð (49%). Minni áhersla er lögð á næringargildi (44%). Siðferði og trú (þ.e.a.s. dýravelferð, umhverfisáhrif og trúarbrögð) hafa minnstu áhrif við val á matvælum (19%). 

Þegar kemur að matvælaöryggi er ekkert eitt málefni sem veldur neytendum mestum áhyggjum meðal aðildarríkja ESB. Í yfir 20 löndum voru þrjú helstu áhyggjuefni neytenda misnotkun á sýklalyfjum, hormónum og sterum í búfé (44%), leifar af skordýraeitri í matvælum (39%) og aukefni í matvælum (36%).

Þegar kemur að upplýsingum um hættur í matvælum bera evrópskir neytendur mest traust til vísindamanna eða 82% (sem er 9% hækkun frá árinu 2010), neytendasamtaka (79%) og bænda (69%). Traust til yfirvalda í hverju landi er 60% og til evrópskra stofnana 58% sem er í takt við niðurstöðurnar frá 2010. 

Rætt var við 27,655 viðmælendur í 28 löndum Evrópusambandsins (ESB) í apríl 2019. Sambærileg viðhorfskönnun var síðast gerð árið 2010. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?