Fara í efni

Könnun á mataræði íslendinga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Lýðheilsustöð og Matvælastofnun (MAST) í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands eru um þessar mundir að hefja könnun á mataræði og neysluvenjum landsmanna. Um tvö þúsund manns á aldrinum 18-80 ára geta því átt von á bréfi með beiðni um þátttöku, en könnunin fer þannig fram að haft verður samband við þátttakendur símleiðis og spurt um mataræði og neysluvenjur. 
 
Lýðheilsustöð, MAST og Rannsóknastofa í næringarfræði hvetja landsmenn til þátttöku.
 

Tilgangur slíkrar könnunar er að fylgjast með mataræði þjóðarinnar, þróun þess og breytingum. Hliðstæð könnun var síðast gerð árið 2002 en ástæða er til að ætla að breytingar hafi átt sér stað á mataræðinu frá þeim tíma, meðal annars í kjölfar efnahagsþrenginga í landinu, en mjög mikilvægt er að kanna mataræði þjóða reglubundið.

Heilsa hverrar þjóðar ræðst að miklu leyti af lífsháttum og er mataræði þar áhrifamikill þáttur. Niðurstöður könnunarinnar munu því nýtast við lýðheilsustarf og fyrir matvælaframleiðslu og matvælalöggjöf í landinu. Almenn þátttaka og velvilji fólks hefur mikið að segja til að sem réttust mynd fáist af fæðuvenjum allra aldurshópa karla og kvenna, hvort sem er í sveitum, bæjum eða borg. Því vilja skipuleggjendur könnunarinnar hvetja alla sem haft verður samband við til þátttöku  og að stuðla þannig að því að fræðslustarf á sviði manneldis og matvælaöryggis verði byggt á traustum og góðum upplýsingum um mataræði og neysluvenjur þjóðarinnar.


Nánari upplýsingar veita:

    Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar á Lýðheilsustöð

    Jónína Stefánsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun


Getum við bætt efni síðunnar?