Fara í efni

Kjötmatsmenn á námskeiði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samræmingarnámskeið fyrir kjötmatsmenn í sauðfjársláturhúsum var haldið á Hvammstanga 26. ágúst sl. í sláturhúsi SKVH og því lauk með fræðslufundi og umræðum í kaffihúsinu Hlöðunni. Þátttakendur voru 22 og leiðbeinendur frá Matvælastofnun voru Stefán Vilhjálmsson og Páll Hjálmarsson. Flestir þátttakendur eru reyndir kjötmatsmenn en nokkrir eru nýliðar sem fá frekari leiðbeiningu hjá yfirkjötmatsmönnum í upphafi sláturtíðar og starfsþjálfun hjá kjötmatsmönnum viðkomandi sláturhúsa.

Sú áherslubreyting var kynnt á námskeiðinu að frampartur fái sama vægi í holdfyllingarmati og læri og hryggur en undanfarið hefur minna tillit verið tekið til framparts við mat í holdfyllingarflokka. Þessi ákvörðun var tekin í kjölfar umræðu, m.a. í nýstofnuðum samráðshópi Matvælastofnunar um kindakjötsmat, Kjötmatsráði kindakjöts. Þar eiga fulltrúa, ásamt Matvælastofnun, Bændasamtökin, Landssamtök sauðfjárbænda, Landssamtök sláturleyfishafa og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Yfirkjötmatsmenn Matvælastofnunar sinna eftirliti með kjötmatinu í sláturtíðinni með tíðum heimsóknum í sláturhúsin þar sem úttekt er gerð á kjötmatinu og kjötmatsmönnum leiðbeint til að tryggja sem best samræmi á landsvísu.


Námskeiði lokið. Flestir þátttakenda ásamt leiðbeinendum.


Getum við bætt efni síðunnar?