Fara í efni

Kæru vegna seiðaeldis í Þorlákshöfn vísað frá

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru veiðifélags Árnesinga, Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, vegna útgáfu Matvælastofnunar á rekstrarleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári í seiðaeldisstöð Laxar fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn.

Niðurstaða nefndarinnar byggir á að náttúrverndarfélögin uppfylli ekki skilyrði til kæruaðildar að málinu þar sem fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Þá vísaði nefndin einnig frá kæru veiðifélagsins með þeim rökum að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni þess að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti rekstrarleyfisins. Vísaði nefndin þar til þess að um landeldi væri að ræða sem lúti öðrum sjónarmiðum en sjókvíaeldi. Í niðurstöðu nefndarinnar sagði: „Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur.“ Að þessum sjónarmiðum virtum teldust hagsmunir veiðifélagsins ekki svo verulegir að þeir gætu skapað félaginu kæruaðild.


Getum við bætt efni síðunnar?