Fara í efni

Kæling afla leggur grunninn að gæðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Það sem af er júní mánuði hafa verið gerðar u.þ.b. 300 hitastigsmælingar á lönduðum afla. Sumarstarfsmenn Matvælastofnunar og eftirlitsmenn Fiskistofu sinna þessu eftirliti. Meðalhitastig á fiski reyndist 3,2°C ,  en skv. reglugerð skal það vera undir 4°C, fjórum klukkustundum eftir að aflinn er tekinn um borð. 

Mælingarnar fóru fram á Norðurfirði á Ströndum, Norðurlandi og á Snæfellsnesi. 

Strandamenn skera sig úr þegar litið er til kælingar afla.  Á Norðurfirði reyndist meðalhitinn 2°C og 90% aflans var vel kældur eða undir 4°C. 

Meðalhiti afla á Norðurlandi var 3,4°C eða sá sama og í júní mánuði í fyrra en á Snæfellsnesi hafði meðalhitinn lækkað,  var í fyrra 3,6°C en nú 3,2°C .  Þá hafði orðið mikil breyting  á dreifingunni það er, hlutur aflans sem kominn var undir 4°C hafði aukist.  Á Snæfellsnesi var hlutur afla undir 4°C  78% en hafði verið 59% í fyrra,  munurinn var heldur minni á Norðurlandi (Myndir 1 og 2).  Þessa ánægjulegu þróun má sennilega rekja til breytinga á kæliaðferð. Í fyrra var u.þ.b. 80% aflans á þessum stöðum kældur með ís en nú er krapinn að sækja á.  Notkun á krapa, sem kælimiðils hefur aukist úr 18% í 37% á Snæfellsnesi og úr 16% í 35% á Norðurlandi.  Hins vegar er nokkuð um það, einkum á Norðurlandi, að sjómenn taki ekki nægan ís í veiðiferð eða fari jafnvel á sjó án þess að taka með sér ís. Það skýrir óbreyttan meðalhita á afla Norðlendinga milli ára.

Á netinu má finna ógrynni upplýsinga um kælingu,  sem og aflameðferð almennt s.s.  blóðgun og slægingu. Kæligátt Matís er þar mjög öflugt verkfæri.

Mynd 1. Snæfellsnes 2012 og 2013. Súlurnar sýna annars vegar hlut mælinga undir 4°C og hins vegar hlut krapa,sem kælimiðils. Hér má glöggt sjá fylgni milli bættrar kælingar og aukinnar notkunar á krapa.

Mynd 2. Norðurland  2012 og 2013.  Súlurnar sýna annars vegar hlut mælinga undir 4°C og hins vegar hlut krapa, sem kælimiðils.  Hlutur krapa í kælingu afla eykst mikið en hlutur mælinga sem sýna hitastig undir 4°C eykst lítið.  Skýrist það m.a. af því að yfir 10% mælinga voru gerðar á afla sem ekki hafði verið ísaður  eða hafði fyrst verið ísaður, eftir löndun.

Hámarksafli hverrar veiðiferðar strandveiðibáta eru 650 kg og sé hitastig sjávar 10°C þarf 74 kg af ís til þessa að kæla þann afla niður að frostmarki.  Síðan þarf að viðhalda því hitastigi og eru því 100 kg. af ís í hverri veiðferð strandveiðibáta hæfilegt magn.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?