Fara í efni

Íslensk laxeldisstöð skilar bestum niðurstöðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í Chíle (SERNAPESCA) hefur tilkynnt að Stofnfiskur hf. er sú lax-/silungseldisstöð sem skilaði bestum niðurstöðum í faglegu áhættumati á hrognaútflytjendum sem staðið hefur yfir í nokkur ár.

Eftirlitsmenn á þeirra vegum hafa verið reglulegir gestir á Íslandi í mörg ár, nú síðast tveir í úttekt á eftirliti og sýnatökum dagana 4. - 8. janúar 2010, þ.m.t. heils dags heimsókn til Selfoss 5. janúar s.l. þar sem MAST stóð fyrir svörum.

Niðurstaðan var sú að einungis 4 kynbótastöðvar í heiminum stóðust þær ströngu kröfur sem eru gerðar, ekki síst m.t.t. eftirlits, sýnatöku og almenns heilbrigðisástands. Stofnfiskur er eina stöðin sem stóðst kröfurnar án athugasemda og er þar með eina laxeldisstöðin sem var samþykkt þar sem hinar þrjár ala regnbogasilung.  Þarna skákar íslensk framleiðsla við mjög hátt skrifuðum eldis- og kynbótastöðvum í löndum eins og Noregi, Skotlandi, Kanada, Írlandi og Finnlandi sem ekki standast skilyrðin og mun árangurinn án efa vekja mikla athygli í hinum alþjóðlega fiskeldisheimi.

Stofnfiskur er eina íslenska kynbótastöðin með laxahrogn í alþjóðlegri dreifingu. Framleiðslan á laxahrognum hefur margfaldast á undanförnum árum og er stefnt að því að framleiða um 50-70 milljónir hrogna árlega samkvæmt vef fyrirtækisins. Um 90% hrognaframleiðslunnar er seld á erlendum mörkuðum.



Getum við bætt efni síðunnar?