Fara í efni

Íslendingur kjörinn forseti Laxaverndunarstofnunarinnar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Dagana 3.-6. júní 2008 var haldinn ársfundur Laxaverndunar- stofnunarinnar (NASCO), en þar er fjallað um stjórnsýslu varðandi veiðar á Atlantshafslaxi og meðal annars teknar ákvarðanir um laxveiðikvóta við vestur-Grænland og Færeyjar. Aðildarlönd NASCO eru Bandaríkin, Evrópusambandið fyrir Írland, Bretlandseyjar og önnur Evrópulönd, Danmörk fyrir Færeyjar og Grænland, Ísland, Kanada, Noregur og Rússland. Við kosningu til embætta á fundinum var Árni Ísaksson starfsmaður Matvælastofnunar kosinn forseti en Mary Colligan frá Bandaríkjunum varaforseti.

Laxaverndunarstofnunin var stofnuð á Íslandi árið 1984 með milliríkjasamningi ofangreindra ríkja og var Guðmundur Eiríksson, þjóðréttarfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu fyrsti forseti samtakanna. Helstu ástæður stofnunar NASCO voru mikil aukning í úthafsveiðum á laxi bæði við vestur-Grænland og Færeyjar, sem voru mjög takmarkaðar með NASCO samningnum. Í samræmi við vísindalega ráðgjöf frá ICES hefur dregið mjög úr þessum veiðum og leyfilegar laxveiðar við Grænland eru nú um 20 lestir, sem eingöngu má nýta til sölu á heimamarkaði. Færeyingar hafa hinsvegar ekki veitt lax í rúmlega 10 ár. Frekari upplýsingar um Laxaverndunar- stofnunina má fá á vefnum www.nasco.int.

Meginefni ársfundar 2008 var að kynna laxveiðistjórnun í aðildarríkjum NASCO, sem er margbreytileg, þar sem stjórnsýslukerfi landanna eru ólík. Einkum var kannað hversu langt einstaka þjóðir væru komnar í því að setja hrygningarmörk fyrir einstaka veiðiár. Í ljós kom að þetta starf var komið mislangt enda er fjöldi laxveiðiáa mjög breytilegur eftir löndum, allt frá því að vera örfáar ár upp í það að vera yfir 1000 ár, sem margar eru í óbyggðum og því lítt aðgengilegar eins og gerist t.d. í Kanada.

Hjá NASCO hefur verið starfandi rannsóknaráð, sem samræmt hefur og stutt rannsóknir á Atlantshafslaxi í sjó en slíkar rannsóknir hafa verið mjög takmarkaðar, þótt fyrir liggi að afföll á laxi í sjó virðast hafa stóraukist hin síðari ár, einkum varðandi stórlax. Á þessu ári hefst stórfellt samvinnuverkefni aðildarþjóða NASCO, sem fengið hefur vinnuheitið SALSEA (Salmon at Sea). Þótt það sé einkum stutt af ýmsum aðildarlöndum NASCO,  hafa þó fengist í það verulegir fjármunir frá rannsóknasjóðum Evrópusambandsins og nokkur stuðningur frá frönsku “Total” samtökunum. Frekari upplýsingar um þessi verkefni má finna á vefsíðunni www.salmonatsea.com.


Getum við bætt efni síðunnar?