Fara í efni

Innleiðing landamæraeftirlits í Bretlandi og vottunarkrafa vegna afurða frá ESB/EES

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Bresk yfirvöld hafa nú kynnt drög að aðgerðaáætlun um innleiðingu landamæraeftirlits með dýraafurðum, dýrum, plöntum og öðrum eftirlitsskyldum afurðum.

Eftirlit með innfluttum afurðum verður áhættumiðað auk þess sem framkvæmd eftirlitsins verður einfölduð og stafrænar lausnir nýttar í því markmiði. Tekin verður upp sérstök gátt (Single Trade Window) sem innflytjendur munu hafa aðgang að til þess að skrá sendingar til Bretlands.

Áætlunin hefur verið þróuð í samvinnu við hagaðila í Stóra-Bretlandi og á næstu vikum halda þarlend yfirvöld kynningar fyrir innflytjendur ólíkra afurða og þeim gefið færi á að koma athugasemdum á framfæri.

Dýr, plöntur og afurðir hafa verið skilgreind í flokka m.t.t. áhættu og m.a. er tekið mið af upprunalandi en áhættugreiningunni er ekki að fullu lokið. Til stendur að henni ljúki fyrir lok aprílmánaðar. Meðal annars liggur ekki enn fyrir hvernig ákveðnar afurðir sem fluttar eru frá Íslandi verða skilgreindar.

  • Mikil áhætta (High risk): Lifandi dýr og kímefni auk vara sem eru um gilda sérstakar varúðarráðstafanir.
  • Miðlungs áhætta (Medium risk): Hrátt, kælt, frosið kjöt, kjötvörur, mjólkurvörur, ABP til nota í fóður, fiskafurðir, lagardýr innflutt sem matvæli.
  • Lítil áhætta (Low risk): Unnar vörur sem eru stöðugar við stofuhita, svo sem samsett matvæli og tilteknar niðursoðnar kjötvörur, unnar aukaafurðir (ABP) og tilteknar fiskafurðir frá löndum með lægri áhættu.

Meðal þess sem landamæraeftirlitið mun fela í sér er krafa um opinbera vottun afurða sem hefur enn ekki verið tekin upp gagnvart ESB/EES ríkjum eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Innleiðingaráætlunin er sem hér segir:

  • 31. október 2023: Vottorða krafist fyrir afurðir með miðlungs áhættu; dýraafurðir, plöntur, plöntuafurðir og afurðir ekki úr dýraríkinu sem lúta sérstöku eftirliti. Þegar er í gildi vottunarkrafa vegna dýra og afurða sem fylgir mikil áhætta.
  • 31. janúar 2024: Innleiðing gagnaskoðunar og áhættumiðaðrar auðkenna- og vöruskoðunar á áfurðum með miðlungs áhættu.
  • 31 October 2024: Single Trade Window gáttin verður tekin í notkun.

Kynningarfundir

Landbúnaðarráðuneyti Bretlands stendur fyrir opnum kynningum á netinu um innleiðingaráætlunina fyrir mismunandi flokka eftirlitsskyldra afurða eins og hér segir:

  • Þriðjudag 2. maí: Mjólkurafurðir
  • Þriðjudag 2. maí: Aukaafurðir dýra (ABP)
  • Miðvikudag 3. maí: Fiskafurðir
  • Miðvikudag 3. maí: Ferskvara (ávextir, grænmeti oþh)
  • Fimmtudag 4. maí: Dýr og kímefni
  • Fimmtudag 4. maí: Kjötafurðir
  • Fimmtudag 4. maí: Plöntur og plöntuafurðir

Skráningar og nánari upplýsingar um kynningar

Matvælastofnun hvetur framleiðendur og útflytjendur afurða til þess að kynna sér vel áætlun um fyrirhugað landamæraeftirlit í Bretlandi og hefja undirbúning eins og hægt er.

Matvælastofnun fylgist með framgöngu mála og upplýsir hagaðila þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.


Getum við bætt efni síðunnar?