Fara í efni

Hundurinn Hunter hólpinn

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hundurinn Hunter sem slapp út af Keflavíkurflugvelli þann 13. júní fannst að kvöldi 18. júní, skammt suðvestan við flugvallarsvæðið.

Dýralæknir við skrifstofu suðvesturumdæmis Matvælastofnunar fór og skoðaði hann þá um kvöldið. Hann reyndist vera í góðu ásigkomulagi miðað við aðstæður.

Tekin voru sýni úr hundinum til rannsókna á smitefnum og sníkjudýrum. Niðurstöður liggja þegar fyrir varðandi sníkjudýrarannsóknina sem gerð var á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og beindist sérstaklega að iðraorminum Strongyloides stercoralis. Lirfur ormsins fundust ekki.

Matvælastofnun fagnar því að Hunter virðist ekki hafa beðið skaða af þessu óhappi. Hann er nú kominn til síns heima í Svíþjóð. Stofnunin mun fara yfir verklag við flutninga á dýrum með þeim sem bera ábyrgð á þeim á Keflavíkurflugvelli.


Getum við bætt efni síðunnar?