Fara í efni

Hræeitrun líkleg orsök hrossadauða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fjögur hross drápust skyndilega á einum bæ í Skagafirði í liðinni viku, leikur grunur á að orsökin sé hræeitrun.

Hræeitrun getur valdið bráðadauða hjá hrossum eða veikindum sem einkennast af vöðvalömun í meltingarfærum og stoðkerfi, sem alla jafna leiða til dauða. Orsökin er öflugt taugaeitur, framleitt af bakteríunni Clostridium botulinum sem við ákveðnar aðstæður nær að magnast upp í rúlluheyi.

Bakterían sem framleiðir taugaeitrið getur leynst í jarðvegi þar sem hún myndar dvalargró á meðan hún bíður eftir heppilegum aðstæðum til að vakna til lífsins. Í heyrúllum sem innihalda dýrahræ, s.s. fugla eða mýs geta skapast kjöraðstæður fyrir bakteríuna sem eru rotnandi líkamsleifar í loftfirrðu umhverfi. Þá tekur bakterían að framleiða öflugt taugaeitur sem mengar heyið og veldur sjúkdómnum botulisma eða s.k. hræeitrun hjá dýrum sem það éta. Hross eru sérlega viðkvæm fyrir þessu eitri sem dregur þau nær undantekningalaust til dauða. 

Slíkar uppákomur eru yfirleitt staðbundnar, þ.e. í rúllum af tilteknum túnum á tilteknum bæjum. Forþurrkun á heyi dregur úr líkunum á fullkominni súrefnisþurrð í rúllum og að bakterían nái að vaxa en að öðru leyti er  erfitt að fyrirbyggja að eiturmyndun geti átt sér stað ef mikið er af bakteríunni í umhverfinu. Eitrið er lyktarlaust og því ekki hægt að þekkja eitraðar rúllur þó rotnandi hræ geti verið vísbending. Meiri hætta er á eiturmyndun í lítið þukkuðu heyi sem verkast illa þannig að sýrustig fellur ekki nægilega til að hindra vöxt bakteríunnar.

Mögulegt er að bólusetja hross gegn þessari eitrun og er það reyndar gert í öllum okkar nágrannalöndum þar sem fóðrað er með rúlluheyi. Hér á landi hefur ekki verið gripið til þess ráðs nema á fáeinum bæjum þar sem eitrunin hefur komið upp.  

Tekið skal fram að ekki er um smitsjúkdóm að ræða og því ekki hætta á að sjúkdómurinn berist á milli bæja nema með þá með menguðu fóðri.   

Á tilraunastöðinni á Keldum  er unnið að rannsóknum á sýnum úr hrossunum. Þær felast einkum í að greina sjúkdómseinkenni og útiloka aðrar orsakir bráðadauða því ekki eru tiltækar aðferðir til að sýna fram á tilvist eitursins.  


Getum við bætt efni síðunnar?