Heimilt að setja viðbótartryggingar vegna salmonellu
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur heimilað íslenskum stjórnvöldum að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og í kalkúnakjöti. Þetta felur í sér að við flutning á þessum matvælum til landsins frá öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skuli fylgja vottorð sem byggja á sérstökum salmonellurannsóknum sem sýna að ekki hafi greinst Salmonella spp. í viðkomandi vöru. Frá þessu er greint á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Ráðuneytið sótti um umræddar viðbótartryggingar hinn 4. júlí sl.
Viðbótartryggingar vegna salmonellu í tilteknum dýraafurðum eru veittar ríkjum á EES með lága tíðni salmonellu í allri framleiðslukeðju þessara afurða til að vernda sérstöðu landanna. Tíðni salmonellu í allri alifuglarækt á Íslandi er mjög lág. Til viðbótar eru varnir og viðbrögð við salmonellu í alifuglarækt hérlendis jafn ströng eða strangari en í nágrannaríkjum okkar sem hafa fengið slíka viðbótartryggingu á EES-svæðinu. Þessar varnir og viðbrögð er að finna í landsáætlun sem Matvælastofnun hefur gefið út. Á þessum grunni heimilar ESA íslenskum stjórnvöldum að setja skilyrði um vottorð fyrir kjúklinga- og kalkúnakjöt og egg sem flutt eru til landsins.
Til þess að viðbótartryggingar taki gildi hér á landi þarf að innleiða löggjöf sem gerir kröfu um að við flutning hlutaðeigandi dýraafurða til landsins frá EES-ríkjum skuli fylgja stöðluð vottorð um greiningu á salmonellu samkvæmt nánar tilgreindum kröfum um fjölda sýna miðað við stærð sendinga, greiningaraðferð og niðurstöður greininga. Stjórnendur matvælafyrirtækja verða ábyrgir fyrir öryggi afurðanna og að fyrirliggjandi vottorð séu aðgengileg opinberum eftirlitsaðilum. Innleiðing viðbótartrygginga er því liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda ef löggjöf um innflutning á kjöti og eggjum verður breytt frá því sem nú er.
Ítarefni
- Ákvörðun ESA
- Landsáætlun um varnir og viðbrögð á Íslandi: Salmonella í alifuglarækt
- Landsáætlun um varnir og viðbrögð við salmonellu í alifuglum - frétt Matvælastofnunar frá 17.01.14
- Könnun á salmonellu og kampýlóbakter í erlendu alifuglakjöti - frétt Matvælastofnunar frá 29.07.15
- Gott eftirlit með salmonellu á Íslandi - frétt Matvælastofnunar frá 11.12.12