Grunur um bakteríusýkingu í garðplöntum af rósaætt
Matvælastofnun hafa borist tilkynningar um grun um smit af bakteríunni Erwinia amylovora í ýmsum plöntum í görðum hér á landi. Bakterían er þekktur skaðvaldur og leggst helst á plöntur af rósaætt (Rosaceae) svo sem epla- og perutré, kirsuberjatré og reyni.
Einkenni sjúkdómsins minna á miklar hitaskemmdir á plöntum og þekkist sjúkdómurinn erlendis undir nafninu fire blight. Blóm og lauf plantna visna og deyja. Dauð blóm og lauf skorpna og taka á sig dökkbrúnan eða svartan lit en haldast oftast á plöntunni. Heilar greinar, stönglar og sprotar visna og í mörgum tilfellum bognar fremsti hlutinn og myndar form sem best má líkja við krók. Lauf geta myndað svarta dauða bletti og ávextir geta orðið brúnir og visnaðir. Á bol geta einnig myndast dökkbrúnir eða rauðbrúnir dauðir blettir sem sökkva eilítið inn í bolinn.
Matvælastofnun mun hefja sýnatöku í vikunni og hvetur alla sem telja sig eiga plöntur sem hafa sýkst af bakteríunni til að senda stofnuninni ábendingu.
Ítarefni
- Um Erwinia amylovora bakteríuna á vef EPPO Global Database
- Myndir af Erwinia amylovora og skemmdum af hennar völdum á vef EPPO Global Database
Mynd: Erwinia amylovora á perutré - Ninjatacoshell, CC Attribution-Share Alike 3.0 Unported license