Gróf valdbeiting við tamningu hrossa
Matvælastofnun varar við notkun á tamningaaðferðum í líkingu við þá sem sýnd var við kennslu nýverið og stofnuninni bárust ábendingar um í vikunni, þar sem fram kom að fólki var verulega misboðið þegar það sá aðfarirnar við hrossin. Í kjölfar ábendinganna rannsakaði Matvælastofnun málið og notaðist m.a. við myndbandsupptöku frá sýnikennslunni. Þar mátti sjá hvernig trippi var gróflega yfirbugað með uppbindingu á öðrum framfæti samtímis þrýstingi á brjóst og herðar. Með jöfnu millibili var togað í bandið til að koma trippinu úr jafnvægi. Eftir 45 mínútna baráttu hjá trippinu við að standast þetta álag, þar sem það féll niður nokkrum sinnum en náði að krafla sig upp aftur, gafst það upp og lagðist. Greinilega sást að það var lafmótt og sveitt eftir átökin og af öllu atferli þess mátti ráða að það var uppgefið.
Það er niðurstaða Matvælastofnunar að tamningaraðferð þessi byggi á grófri valdbeitingu sem ekki er ásættanleg út frá sjónarmiði dýravelferðar. Aðrar mildari aðferðir eru enda vel þekktar til að ná sama markmiði við tamningar.
Yfirdýralæknir varar við framangreindri tamningaraðferð og telur hana andstæða velferð dýra.