Fara í efni

Greining riðusýna gengur vel

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Greining riðusýna gengur vel, ekki hafa fleiri riðutilfelli komið upp í Tröllaskagahólfi en sýni þaðan eru í forgangi. Búið er að taka um fjögur þúsund sýni úr Tröllaskagahólfi en faraldsfræðilegar rannsóknir halda áfram. Þó riða greinist ekki í sýnum ber að taka því með fyrirvara því næmi prófsins er 67% og þannig ekki hægt að útiloka frekari útbreiðslu.

Matvælastofnun hefur tekið 3.947 sýni úr Tröllaskagahólfi frá því að fyrsta tilfellið kom upp í haust. Þau skiptast þannig að 170 sýni eru úr kindum sem felldar voru í tengslum við flutninga frá sýktum búum, 1.449 sýni eru úr sláturfé og 2.328 sýni úr fé sem skorið var niður.

Sýnin voru send til greiningar hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Ekki hefur greinst riða í sauðfé frá fleiri bæjum.

Greining á sláturfé úr Tröllaskagahólfi var sett í forgang og er nú lokið. Nú hefst greining sýna úr fé sem skorið var niður á sýktum bæjum til að kanna útbreiðslu innan hjarðanna og reglubundin greining sýna úr sláturfé af öllu landinu.

Matvælastofnun ítrekar að þrátt fyrir að ekki séu vísbendingar um frekara smit innan hólfsins þá er ekki hægt að útiloka það. Meðgöngutími riðu er 2-5 ár og verður tíminn að leiða í ljós hvort riða hefur dreift sér frekar. Rakning fjárflutninga á svæðinu heldur áfram og greining sýna úr kindum sem hafa verið fluttar milli bæja er í forgangi. Tilkynnt verður um smit þegar og ef það greinist.

Smitvarnir eru mikilvægar og fylgja verður takmörkunum sem gilda innan sýktra varnarhólfa. Bændur eru hvattir til að fylgjast vel með kindum sínum og tilkynna tafarlaust um kindur sem drepast eða grun um riðu. Í nýrri kynningu Matvælastofnunar á riðuveiki í sauðfé geta bændur fengið upplýsingar um sjúkdóminn og horft á myndbönd sem sýna einkenni fjár með riðu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?