Fara í efni

Grunur um nýtt riðutilfelli í Skagafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sterkur grunur er um riðuveiki á Stóru-Ökrum 1 (Brekkukoti) í Akrahreppi í Skagafirði. Matvælastofnun hefur sett bann á allan flutning líffjár (sauð- og geitfjár) innan Tröllaskagahólfs til bráðabirgða þar til greining hefur verið staðfest.  

Bóndinn hafði samband við starfandi dýralækni sem tilkynnti héraðsdýralækni um kind með einkenni riðuveiki. Héraðsdýralæknir skoðaði kindina sem síðan var aflífuð, sýni tekin og send til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum. Bráðabirgðaniðurstöður liggja fyrir sem benda sterklega til að um riðuveiki sé að ræða en staðfesting mun liggja fyrir eftir helgi.  

Búið er í Tröllaskagahólfi og á svæði þar sem ekki hefur greinst riða síðan árið 2000.  Á búinu er nú um 500 fullorðið fé auk um 300 lamba. 

Á meðan beðið er eftir staðfestingu vinnur héraðsdýralæknir að undirbúningi aðgerða og öflun faraldsfræðilegra upplýsinga.  

Upplýst verður um staðfestingu riðugreiningar um leið og hún liggur fyrir. 


Getum við bætt efni síðunnar?