Fara í efni

Gat á sjókví í Patreksfirði – upplýsingar um sláturtölur

Fyrirtækið Arctic Sea Farm hefur lokið við að slátra fisk upp úr kví nr. 8 á eldissvæði sínu við Kvígindisdal í Patreksfirði, en sunnudaginn 20. ágúst síðastliðinn tilkynnti fyrirtækið að tvö göt hefðu fundist á umræddri kví á 2,5 metra dýpi. Götin voru hlið við hlið og um 20x30 cm að stærð hvort.

Útsetning seiða í kvínna var 4. september 2021 og uppgefin fjöldi seiða við útsetningu 133.052 seiði. Á eldistímabilinu voru skráð afföll 19.069 fiskar. Fyrir 1. ágúst síðastliðinn var búið að slátra upp úr kvínni 30.309 fiskum og á því tímabili sem talið er að gatið hafi myndast voru því 83.672 fiskar í kvínni. Eftir að búið var að tæma kvínna og slátra öllum fisk var fjöldi slátraðra fiska 110.521 að meðtöldum þeim fiskum sem slátrað var fyrir 1. ágúst. Mismunur á fjölda fiska sem fór upphaflega í sjókvína og fjöldi slátraðra fiska var 3.462 sem er 2,6%.

Reynsla Matvælastofnunar af framleiðsluskýrslum eldisaðila er að reikna megi með um 2-4% skekkjumörkum frá fjölda útsettra seiða og þess sem slátrað er í hverri kví. Þessi skekkja í fjölda orsakast meðal annars vegna þess að fiskur er talinn við bólusetningu í seiðastöð á landi og síðan eru dregin frá afföll sem verða eftir bólusetningu í landeldisstöð og afföll sem verða eftir útsetningu í sjókvíar. Fjöldi seiða í sjókví er því reiknaður fjöldi á hverjum tímapunkti og við það myndast skekkja í fjölda fiska í kví.

Matvælastofnun hefur málið til rannsóknar og hefur til skoðunar orsök þess að göt komu á sjókvína auk þess sem beðið er eftir erfðagreiningu á löxum sem veiðst hafa með eldiseinkenni til þess að geta staðfest uppruna þeirra.

Frekari upplýsingar verða veittar þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir.


Getum við bætt efni síðunnar?