Fara í efni

Gat á sjókví í Ísafjarðardjúpi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Háafelli í dag mánudaginn 27. febrúar um gat á netapoka einnar sjókvíar Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi.

Gatið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á kví C5 og er bráðabirgðaviðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Háafells er gatið um 10 cm x 4 cm  á 10 m dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 115.255 laxaseiði sem sett voru í kvínna 5. október 2022. Seiðin eru um 500g að þyngd að meðaltali. Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt um miðjan janúar sl. og var netapoki þá heill.

Matvælastofnun hefur fyrirskipað köfun í allar kvíar á eldissvæðinu sem um ræðir til að tryggja að ekki séu fleiri göt á öðrum kvíum. Háafell leggur út net á eldissvæðinu í samráði við Fiskistofu.


Getum við bætt efni síðunnar?