Fara í efni

Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Um síðustu áramót tók gildi ný reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu (nr. 1160/2013). Fulltrúar Landssambands sauðfjárbænda (LS) höfðu veg og vanda af gerð hennar með umsögn frá ýmsum aðilum, sem svo ráðuneytið staðfesti 20. desember. Um áramótin tóku jafnframt gildi ný lög um búfjárhald. Með gildistöku þeirra laga færðist búfjáreftirlit frá sveitarfélögum yfir til Matvælastofnunar (MAST) og í stað þeirra sem fyrir voru í hlutastörfum voru ráðnir sex dýraeftirlitsmenn, einn í hvert umdæmi landsins. Matvælastofnun hefur hingað til séð um eftirlit með velferð og aðbúnað dýra en með nýrri gæðastýringarreglugerð var stofnuninni falið að fara með eftirlit með framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.  Dýraeftirlitsmenn  sinna nú ásamt héraðsdýralæknum og eftirlitsdýralæknum eftirliti með velferð og aðbúnaði dýra og hafa eftirlit með sérstökum þáttum gæðastýringar.

Í nýrri gæðastýringarreglugerð er eins og áður miðað við að lágmarkskröfur aðbúnaðarreglugerðar sauðfjár séu uppfylltar en til viðbótar við þær kröfur er skerpt á umhverfismálum þ.e. umgengni og ásýnd býla.

Helstu þættir sem hafa þarf í huga:

  • Þeir sem óska eftir að taka upp gæðastýrða framleiðslu sækja um það í Þjónustugátt Matvælastofnunar fyrir 20. nóvember ár hvert. Beiðni um að hætta er jafnframt send til MAST.
  • Umsækjandi þarf að sækja undirbúningsnámskeið.
  • Framleiðendur eru skyldaðir til að fylla út gæðahandbók, s.s. áburðarnotkun, gróffóðuröflun og fóðrun, landnýtingu, lyfjakaup og -notkun, umhverfi, ástand og ásýnd umhverfis.
  • Fjárstofn skal skrá í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands fyrir 31. desember. Sé það ekki gert fær viðkomandi bóndi viðvörun og í framhaldi fjögurra vikna frest, annars er litið svo á að viðkomandi uppfylli ekki skilyrði um gæðastýrða framleiðslu.
  • Eftirfarandi eru þættir sem varða ímynd sauðfjárbúskapar, þ.e. viðmiðunarreglur um mat á umhverfisþáttum. Bóndi telst ekki uppfylla skilyrði um gæðastýringu ef eitt eða fleiri atriði eru ekki í lagi:
    • Girðingar: Ástand girðinga er með þeim hætti að þær eru hættulegar skepnum t.d. liggja á hliðinni, laus gaddavír og svo framvegis.
    • Umhverfi mannvirkja: Óþrifnaður út frá taðhaugum, járnadrasl, ónýtir rafgeymar, áberandi magn af ónýtum vélum, tækjum o.s.frv.
    • Umhirða og uppröðun lausra hluta: Magn ónýtra tækja sem ekki er raðað eða komið fyrir með skipulegum hætti, sem og vélar og tæki sem hindra aðgengi að mannvirkjum.
    • Laust plast, net, garn og stórsekkir: Laust og fjúkandi plast, net og garn. Stórsekkir áberandi, t.d. plast, net og garn. Stórsekkir á girðingum eða troðið niður í kringum rúllustæður. Ekki sinnt um að hirða plast, net og garn af rúllum sem eru gefnar úti. Haugar af ónýtum rúllum með rifið plast. Tómir og/eða ónýtir áburðar- eða fóðurbætissekkir.
  • Framleiðandi þarf að uppfylla skilyrði um landnýtingu á öllu því svæði sem tilgreint er í umsókn. Uppfylli heimaland ekki kröfur þarf að vinna landbótaáætlun til allt að 10 ára og skal þá leita umsagnar Landgræðslu ríkisins. 
  • Uppfylli framleiðandi ekki skilyrði gæðastýringar skal Matvælastofnun veita hæfilegan frest til úrbóta þó að hámarki fjögurra vikna frest, samkvæmt reglugerðinni. Þegar grípa þarf til ráðstafana vegna vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar hjá framleiðanda skv. 38. gr. laga nr 55/2013 um velferð dýra eru skilyrði gæðastýringar ekki uppfyllt. Í slíkum tilfellum skal ekki veita frest til úrbóta.

Ljóst er að miklar breytingar hafa átt sér stað í hefðbundnu búfjáreftirliti, eins og við flestar breytingar ganga þær sjaldnast hnökralaust fyrir sig. Eftirlitsaðilar sem og bændur hafa bent á ýmsa þætti sem betur mættu fara í kjölfar eftirlits síðasta vors og vinnur nú Matvælastofnun að því að endurskoða verklag og framsetningu, m.t.t. þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið. Mikilvægt er að framkvæmd eftirlits sé í stöðugri endurskoðun og að markvisst sé unnið að úrbótum.

Á þessu ári hefur að nokkru verið komið til móts við framleiðendur og sveigjanlegri frestur verið veittur en reglugerðin segir til um, þ.e. lengri en 4 vikur. Ljóst er að það samræmist ekki reglugerðinni, en er tímabundin viðleitni Matvælastofnunar til að vinna með framleiðendum að settum markmiðum gæðastýringar.  

Metnaður allra er jú að tryggja aðbúnað og velferð dýra og í gegnum gæðastýringareglugerðina að skrásetja framleiðsluaðferðina, tryggja rekjanleika afurða, viðhalda náttúrugæðum og ásýnd býla.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?