Fara í efni

Fyrsta starfsár Matvælastofnunar (MAST)

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.Nú hefur árið 2008 runnið sitt skeið og lýkur þar með fyrsta starfsári MAST. Verkefni sem stofnunin tókst á við voru jafnt fjölbreytileg sem krefjandi og settu svip á nýja starfshætti og áherslur á sviði matvælaöryggis og dýraheilbrigðis. Stofnunin þakkar samstarfsaðilum fyrir samvinnuna á árinu og óskar þeim farsældar á nýju ári.

Matvælastofnun hóf störf 1. janúar 2008 þegar Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum hatti. Stofnunin hefur það að leiðarljósi að stuðla að matvælaöryggi, plöntu-  og dýraheilbrigði, ásamt dýravelferð og annast stjórnsýslu þar að lútandi. Nánari upplýsingar um starfsemi MAST má nálgast hér.


Verkefnin á sviði dýraheilbrigðis og dýravelferðar voru fjölbreytt. Nokkrir alvarlegir dýrasjúkdómar skutu upp kollinum, en nefna má að fuglaflensa greindist ekki við reglulegt eftirlit. Aðrir A-sjúkdómar gerðu hins vegar vart við sig. Í Skagafirði kom upp plasmacýtósa á minkabúi og riða í sauðfé. Fyrr á árinu hafði riða greinst í Hrútafirði og þurfti að farga öllum dýrum í tilfellunum þremur. Þegar beinaleifar af nautgrip fundust við jarðvegsvinnu í Garðabæ á svæði þar sem vitað var um sýkta nautgripi á stríðsárunum var brugðist við eins og um miltisbrandssýkingu væri að ræða. Vægari skaðvaldar herjuðu einnig á búfé, s.s. sveppasýkingar eins og hringskyrfi í nautgripum. Í lok desember kom upp illvíg salmonellusýking í hrossum í Mosfellsbæ.

Undir nóvemberlok greindist sníkillinn Ichthyophonus hoferi í síld hér við land og reyndist töluvert hátt hlutfall veiddrar síldar sýkt. Mönnum steðjar ekki hætta af sníkjudýrinu en bannað er samkvæmt lögum að selja augljóslega sýktan fisk til manneldis og var því um gríðarlega hagsmuni að ræða.

Ýmsar tilkynningar bárust frá viðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF). Ber þar hæst greiningu melamíns í mjólkurdufti frá Kína og greiningu díoxíns í svínakjöti frá Írlandi. Inn- og útflutningsskrifstofa MAST í Reykjavík annast eftirlit með innfluttum matvælum og var strax skoðað hvort umrædd matvæli hefðu borist til landsins. Í þessum málum sem og öðrum sem varða öryggi matvæla á markaði vinna MAST og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga saman að úrlausn mála.

Hættur bárust ekki eingöngu erlendis frá. Eftir þrjú ár án salmonellu í kjúklingaeldi komu upp 5 tilfelli í eldishúsum á liðnu ári og í einu tilviki greindist salmonella við slátrun. Aukin tíðni salmonellu kom einnig fram í eldi svína, sem meðal annars leiddi til strangara eftirlits við slátrun. Fyrirbyggjandi aðgerðir virðast hafa borið góðan árangur og er nú unnið að áætlunum um frekari sýnatökur vegna salmonellu. Eftirlit stofnunarinnar beinist einnig að aðföngum. Jafnframt greindist þörungaeitur yfir leyfilegum mörkum í skelfiski í Hvalfirði og Eyjafirði.

Þörfin á að upplýsa neytendur um þær hættur sem kunna að leynast í matvælum er brýn og hefur MAST lagt áherslu á fræðslustarf með það að leiðarljósi. Í haust hófu fræðslufundir MAST göngu sína og munu halda áfram í vor. Fundirnir eru haldnir í húsakynnum  stofnunarinnar í Reykjavík síðasta þriðjudag hvers mánaðar yfir veturinn og eru opnir almenningi. Útgáfa fræðsluefnis og fréttatilkynninga, ásamt greinaskrifum í blöðum og tímaritum eflir fræðslustarfið enn frekar.

MAST vill tryggja fagmennsku og gæði í starfsemi og þjónustu. Vinna við gerð gæðahandbókar er hafin og mun tilkoma hennar stuðla að hagræðingu í þjónustu og rekstri og auðvelda stofnuninni að takast á við þau verkefni sem nýtt ár ber í skauti sér. Í byrjun ársins mun Alþingi fjalla um frumvarp um breytingu á EES-samningnum og upptöku nýrrar matvælalöggjafar ESB hér á landi. Verði fumvarp þetta að lögum munu þau hafa veruleg áhrif á starfsemi MAST á komandi árum. Stofnunin hefur þegar hafið undirbúning að þeim breytingum með gerð eftirlits- og sýnatökuáætlana og öðrum ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru vegna endurskoðunar löggjafar og eftirlits í fæðukeðjunni, allt frá fyrstu stigum framleiðslu og þar til tilbúin matvæli eru sett á markað.


Getum við bætt efni síðunnar?