Fara í efni

Framandi villt dýr

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þegar framandi villt dýr finnst hér á landi koma ýmsir aðilar að málum. Mikilvægt er að góð samvinna sé milli þeirra þannig að viðbrögð verði fumlaus. Samstarfshópur Matvælastofnunar, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar hefur skrifað sameiginlega áætlun um viðbrögð við slíkum málum. Í henni er m.a. tilgreint hverjum skuli tilkynnt um fund á framandi dýri og hvað gerist í framhaldinu.

Áætlunin tekur til viðbragða þegar villt dýr af tegund sem ekki er hluti af villta íslenska dýrastofninum finnst hér á landi. Hún á þó ekki við um fugla. Undanskilin eru einnig viðbrögð við hvalreka og landgöngu hvítabjarna, sem sérstakar viðbragðsáætlanir gilda um. Um er að ræða frumútgáfu af viðbragðsáætlun en fyrirhugað er að bæta við hana leiðbeiningum um ýmsar dýrategundir.

Tilgangurinn með áætluninni er að tryggja að rétt sé staðið að handsömun, aflífun, sýnatökum og rannsóknum á dýrinu, og varðveislu eða eyðingu á hræi. Þetta er mikilvægt til að hindra eins og kostur er útbreiðslu smitefna sem dýrið getur hugsanlega borið með sér og að hræ dýrsins sé meðhöndlað á þann hátt að það megi varðveita ef það er talið áhugavert.

Sá sem verður var við dýr sem hér um ræðir, á að tilkynna það til Matvælastofnunar. Héraðsdýrlæknir í því umdæmi sem dýrið er í hefur umsjón með fyrstu viðbrögðum og kemur málinu í það ferli sem lýst er í viðbragðsáætluninni.  Símanúmer í móttöku MAST er 530 4800. Símanúmer héraðsdýralæknis í Suðvesturumdæmi er 894 0240, í Norðvesturumdæmi 858 0886, í Norðausturumdæmi 858 0860 og í Suðurumdæmi 839 8300.


Getum við bætt efni síðunnar?