Fara í efni

Fræðslufundur MAST: Notkun Skráargatsins

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur fræðslufund fyrir matvælaframleiðendur um notkun Skráargatsins þriðjudaginn 18. febrúar kl. 14:00 - 16:00. Á fræðslufundinum verður farið ítarlega í gegnum reglugerðina um Skráargatið og skilyrði fyrir notkun merkisins, þær kröfur sem gerðar eru við merkingu Skráargatsins á umbúðum matvæla sem og þær reglur sem gilda þegar merkið er notað í almennri markaðssetningu og auglýsingum. Einnig verða til umfjöllunar nýjar breytingartillögur á reglugerðinni sem sendar hafa verið til umsagnar.

Skráargatið var innleitt á Íslandi þann 12. nóvember sl. Mikill áhugi er meðal framleiðenda á að nota merkið og er þörfin á upplýsingum um merkið og skilyrði þess því mikil.

Skráargatið er valfrjálst merki sem stendur fyrir betra vali á matvælum innan tiltekins matvöruflokks. Rétt notkun er forsenda þess að merkið njóti trausts. Til þess að tryggja rétta notkun merkisins og að skilyrðunum sé fylgt, hefur verið sett reglugerð um notkun þess (Reglugerð nr. 999/2013 um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla).

Notkun Skráargatsins er valfrjáls en notkun þess verður engu að síður að vera í samræmi við þann ramma sem reglugerðin setur og þau skilyrði sem um Skráargatið gilda. Í reglugerðinni er einnig ákvæði um eftirlit með merkinu og viðurlög við rangri notkun þess. Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa eftirlit með því að reglum um Skráargatið sé fylgt.

Skráargatið er byggt á norrænum næringarráðleggingum. Á síðasta ári kom út ný endurskoðuð útgáfa af þeim, sem Skráargatið þarf að taka mið af. Valfrjálst merki eins og Skráargatið verður að markaðssetja og aðlaga að breytingum á markaði og neysluvenjum svo að það henti bæði neytendum og matvælaiðnaðinum í framtíðinni. Þess vegna hefur norrænn starfshópur unnið að endurskoðun reglugerðarinnar síðastliðin tvö ár. Í þessari endurskoðun hefur verið lögð sérstök áhersla á skerðingu saltinnihalds og sett eru skilyrði fyrir mettaðar fitusýrur. Ýmsar breytingar á matvælaflokkunum eru einnig fyrirhugaðar, nýir flokkar settir inn og einn tekinn út. Nánari upplýsingar um þessar fyrirhuguðu breytingar er að finna í frétt Matvælastofnunar: Ný reglugerð um notkun Skráargatsins til umsagnar

Gert er ráð fyrir að núverandi reglugerðir á Norðurlöndum munu gilda áfram til 1. janúar 2016. Því er mikilvægt að upplýsa matvælaframleiðendur, innflytjendur, verslunarrekendur, eftirlitsaðila og aðra hlutaðeigandi um núgildandi reglur, þrátt fyrir að drög að nýrri reglugerð um Skráargatið hafi verið lögð fram til umsagnar.

Fyrirlesarar:  

  • Zulema Sullca Porta, sérfræðingur hjá Matvælastofnun
  • Jónína Þ. Stefánsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun 

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði stofnunarinnar að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?