Fara í efni

Fræðslufundur: Fæðubótarefni og heilsa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun (MAST) heldur fræðslufund um fæðubótarefni og heilsu þriðjudaginn 28. apríl 2009 kl. 15:00-16:00. Á fundinum verður fjallað um gildandi reglur um fæðubótarefni og breytingar á Evrópulöggjöfinni, eftirlit með innihaldi og fullyrðingum, gæði fæðubótarefna og rannsóknir á áhrifum þeirra.

Fjöldi tilkynninga hefur borist frá viðvörunarkerfi Evrópu í vor um hættuleg fæðubótarefni á markaði. Í Noregi og Svíþjóð voru ýmis tilfelli lifrarskaða og eitt dauðsfall tengd neyslu á fæðubótarefninu Fortodol sem innihélt lyfið Nimesulid. Ólöglegtlitarefni sem tengt hefur verið við ofvirkni og ljósnæmni greindist í kreatín-blöndum og fitubrennslufæðubótarefnum sem um tíma voru hér á markaði. Tilkynningar bárust um kynörvandi fæðubótarefni sem innihalda sildenafil og tadalafil sem eru virku efnin í lyfjunum Viagra og Cialis. Anabólískur sterar mældust í sink, magnesium og B6-vítamínblöndu svo fáein dæmi séu tekin. Jafnframt hafa fullyrðingar um heilsubætandi áhrif fæðubótarefna s.s. ImmiFlex verið gagnrýndar. 

Í flestum tilfellum var ekki vitað til þess að tilteknar vörur væru á markaði hér á landi en með aukinni verslun á netinu eykst hætta á neyslu óæskilegra fæðubótarefna. Brýnt er að sinna skilvirku eftirliti og upplýsa neytendur um þær hættur sem að þeim kann að steðja vegna neyslu á fæðubótarefnum.

Fyrirlesarar:

    Katrín Guðjónsdóttir, sérfræðingur um fæðubótarefni hjá Matvælastofnun
    Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor við Rannsóknastofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!


Getum við bætt efni síðunnar?