Fara í efni

Fölsun á vottorðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í ljós hefur komið fölsun á vottorðum sem framvísað hefur verið á síðustu mánuðum við innflutning á laxi við landamæri Rússlands. Vörunum fylgdu vottorð sem gáfu til kynna að laxinn væri frá Íslandi og framleiddur af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Matvælastofnun hefur fengið tvö vottorð til skoðunar og hefur staðfest gagnvart rússneskum yfirvöldum að þau eru fölsuð.

Á þessu stigi málsins er óljóst frá hvaða ríki eða framleiðanda þessar vörur koma, en Matvælastofnun og systurstofnun hennar í Rússlandi munu áfram vinna að því að afla frekari upplýsinga. Ekkert hefur komið fram sem tengir íslensk fyrirtæki við fölsun þessara vottorða.

Um er að ræða sendingar af eldislaxi til Rússlands í haust og hafa sumar þeirra komið til skoðunar á landamærastöðvum þar á síðustu dögum. Á fölsuð heilbrigðisvottorð sem hafa fylgt vörunum er skráð heiti Matvælastofnunar ásamt samþykkisnúmeri og heiti íslenskra fyrirtækja. Vottorðin sem um ræðir eru ekki í samræmi við samþykkt heilbrigðisvottorð Matvælastofnunar og voru ekki gefin út af henni. Hlutaðeigandi fyrirtæki hafa einnig staðfest að þau framleiða ekki eða flytja út lax til Rússlands. 


Getum við bætt efni síðunnar?