Fara í efni

Fjallalamb fær leyfi til útflutnings á lambakjöti til Kína

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Undanfarin 4 ár hefur Matvælastofnun í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Kína unnið að öflun leyfis til útflutnings á lambakjöti frá Íslandi til Kína.

Síðastliðið haust var undirritaður samningur milli Íslands og Kína um skilyrði, heilbrigðiskröfur og eftirlit vegna útflutnings á lambakjöti frá Íslandi til Kína.

Í kjölfarið á því sótti Fjallalamb hf á Kópaskeri um leyfi fyrir sláturhús, kjötpökkunarstöð og frystigeymslu fyrirtækisins til útflutnings á lambakjöti til Kína.

Mikilvægustu kröfur Kínverja varða riðu. Einungis má flytja kjöt af lömbum yngri en 6 mánaða sem fædd eru og alin á riðulausum svæðum og jafnframt eiga sláturhús, kjötpökkunarstöðvar og frystigeymslur að vera á riðulausum svæðum.

Fjallalamb hf uppfyllir þessi skilyrði og aðrar kröfur kínverskra yfirvalda og það hefur nú verið sett á opinberan lista í Kína yfir fyrirtæki sem hafa leyfi til að flytja lambakjöt frá Íslandi á Kínamarkað. Útflutningur getur hafist í næstu sláturtíð.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?