Fara í efni

Fæðubótarefni tengt við heilablæðingartilfelli í Svíþjóð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sænska matvælastofnunin, Livsmedelsverket, hefur sent út aðvörun við notkun fæðubótarefnisins Jacked Power þar sem varan hefur verið tengd við heilablæðingartilfelli þar í landi.

Jacked Power er s.k. „pre workout“ blanda sem ætlað er að auka getu íþróttafólks.  Varan inniheldur nokkur efni s.s. fenýletýlamín og afleiðu þess N,N-fenýletýlamín.  Læknar í Svíþjóð telja vöruna vera tengda heilablæðingartilfelli.

Samkvæmt reglugerð um fæðubótarefni er innlendum framleiðanda/innflytjanda skylt að tilkynna innflutning/markaðssetningu nýrra fæðubótarefni til MAST.  Varan Jacked Power hefur ekki verið tilkynnt til Matvælastofnunar og hefur stofnunin því ekki upplýsingar um að varan sé á almennum markaði hér á landi, en hún gæti verið til sölu á internetinu og því varar Matvælastofnun neytendur við neyslu hennar.

Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti.  Eftirlit með fæðubótarefnum á markaði er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.  Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefnum verið talsvert aukið.  

Matvælastofnun beinir því til neytenda að vera varkárir þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vörur sem þeir kaupa og innihald þeirra.

Þá er því er beint til neytenda að hafa samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit eða Matvælastofnun hafi þeir upplýsingar um vöruna á innlendum markaði.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?