Evrópusambandið leyfir fosföt í saltfiski
Gerðar hafa verið breytingar á reglugerð Evrópusambandsins um aukefni í matvælum, sem fela í sér rýmkun á notkun fosfata í saltfiski. Framleiðsla á fosfatblönduðum saltfiski má þó ekki hefjast fyrr en 31. desember 2013. Samkvæmt nýju reglunum, sem enn hafa ekki tekið gildi hér á landi, verður heimilt að nota tvífosföt (Diphosphates E450), þrífosföt (Triphosphates E451) og fjölfosföt (Polyphosphates E452) við framleiðslu á blautsöltuðum saltfiski. Í aðfararorðum breytingarreglugerðarinnar kemur fram að ákveðin skilyrði eru fyrir notkun efnanna:
- Samtals hámarksmagn efnanna er hið sama hvort heldur notuð eru tví-, þrí, eða fjölfosföt eða blanda þeirra.
- Saltprósentan í fiskinum skal vera 18% eða hærri.
- Merkja skal notkun fosfatanna í innihaldslýsingu, skv. reglum þar um. Framleiðendum blautsaltaðs fisks sem framleiddur er án viðbættra fosfata, er heimilt að setja merkingu á vöruna um að hún sé framleidd án viðbættra fosfata.
- Bent er á að við útvötnun skolist burt stærstur hluti fosfata þannig að það magn sem neytandi fær í sig við neyslu, er undir öllum hættumörkum.
Í aðfararorðum er minnt á að saltfiskur fyrir Portúgal („bacalau“) er þurrkaður og hefur hefðbundinn lit. Því sé ekki æskilegt að framleiða saltfisk fyrir Portúgal með viðbættum fosfötum. Þar kemur einnig fram að á næstu þremur árum muni framkvæmdastórnin fylgjast með notkun fosfata í saltfiskframleiðslu í helstu saltfiskframleiðslulöndum í þeim tilgangi að kanna hvort hún komi niður á aðgengi að þorski til framleiðslu á bacalau.
Til þess að framleiðsla geti hafist í EFTA ríkjunum þarf fyrst að taka þessa reglugerð upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Sú vinna er í fullum gangi og verður samhliða unnið að breytingu á íslenskum aukefnareglum. Reglugerð (EB) nr. 1068/2013 um breytingu á reglum um notkun fosfata í saltfiski má nálgast hér að neðan.