Fara í efni

ESA staðfestir gott eftirlit með heilbrigði lagareldisdýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ísland býr að því að hafa áralangt viðhaft gott opinbert eftirlit með heilbrigði eldisfisks og annarra lagareldisdýra. Það hefur skilað sér í jákvæðu heilbrigðisástandi og er Ísland af þeim sökum stórvirkur aðili í sölu á lifandi fiski og hrognum bæði til Evrópska efnahagssvæðisins og landa utan EES.

Niðurstöður úttektar ESA (eftirlitsstofnunar EFTA) á eftirliti með heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, og forvörnum og vörnum gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum, hafa nýlega borist eftirlitsaðilum hérlendis. 

ESA kom í eftirlitsheimsókn til Íslands 11.-20. mars síðastliðinn. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með heilbrigði lagareldisdýra á Íslandi sé í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Til lagareldisdýra teljast eldisfiskur, skeldýr og krabbadýr í eldi. Fjórir eftirlitsmenn komu til Íslands, tveir frá ESA, áheyrnarfulltrúi frá Matvæla- og dýraheilbrigðisskrifstofu Evrópusambandsins (FVO) og sérfræðingur frá tilvísunarrannsóknastofu ESB (EURL) til ráðgjafar. Dýralæknar fisksjúkdóma og aðrir eftirlitsmenn Mast fylgdu hópnum í heimsóknir í fiskeldisfyrirtæki á sjó og landi, fiskeldissláturhús, móttöku fiskeldisúrgangs og tilvísunarrannsóknastofu í fisksjúkdómum.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu og þar koma fram tilmæli um lítilsháttar úrbætur, en í skýrslunni segir jafnframt að opinbert eftirlit dýralækna fisksjúkdóma sé reglubundið, áhættumiðað og vel skjalfest. Meðal athugasemda ESA kemur fram að þrátt fyrir að nær öll löggjöf EES varðandi heilbrigði lagareldisdýra sé innleidd á Íslandi hafi eftirlitsteymið orðið vart við seinagang í innleiðingarferlinu. Athugasemdir voru gerðar við tilhögun leyfisveitinga til lagareldisfyrirtækja og að engin sláturhús væru útbúin til að taka við sýktum fiski. Þá komu smávægilegar athugasemdir fram um lagfæringar á opinberri skrá yfir eldisfyrirtæki og að samþykki ESA skorti á útgefinni viðbragðsáætlun MAST vegna fisksjúkdóma.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis, ásamt athugasemdum og leiðréttingum. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?