Fara í efni

Enn nokkuð um fuglaflensu í villtum fuglum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Enn  verður óeðlilega mikils dauða vart í villtum fuglum, sér í lagi meðal þeirra tegunda sem skæð fuglaflensa hefur greinst í á þessu ári. Því eru enn í gildi reglur um ráðstafanir til að fyrirbyggja að smit berist frá villtum fuglum í alifugla. Þó hefur sú breyting verið gerð að reglurnar gilda ekki um dúfur.

Matvælastofnun berast enn fjölmargar tilkynningar um dauða villta fugla. Stofnunin telur því nauðsynlegt að viðhalda þeim sóttvarnaráðstöfunum sem kveðið er á um í auglýsingu ráðherra sem gefin var út fyrr á þessu ári, til varnar því að smit berist í alifugla. Breyting hefur þó verið gerð á reglunum á þann veg að þær gilda ekki lengur um dúfur. Þetta var gert samkvæmt tillögu Matvælastofnunar, sem byggir á því að fjölmargar vísbendingar eru um að dúfur hafi lítil sem engin áhrif á útbreiðslu þess afbrigðis fuglaflensuveirunnar sem nú geisar.

Matvælastofnun vill enn á ný ítreka beiðni til almennings um að tilkynna stofnuninni um dauða villta fugla sem finnast. Þetta er mikilvægur liður í því að fylgjast með þróun og útbreiðslu hins skæða afbrigðis fuglaflensuveirunnar. Ekki er mögulegt að taka sýni úr öllum fuglum sem tilkynnt er um en þeir eru allir skráðir og sérfræðingar stofnunarinnar meta hvort ástæða sé til að taka úr þeim sýni. Besta leiðin til að tilkynna er að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar en líka er hægt að hringja í síma 5304800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Um veika villta fugla skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags, sem er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt, samkvæmt lögum um velferð dýra. Utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.


Getum við bætt efni síðunnar?