Fara í efni

Eftirlit skal að öllu jöfnu fara fram óboðað

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hlutverk Matvælastofnunar er að standa vörð um heilsu manna, dýra og plantna og er eftirlit verkfæri stofnunarinnar til að uppfylla þetta hlutverk. Neytendur eiga að geta treyst því að matvæli sem þeir neyta séu heilnæm og örugg og skaði ekki heilsu þeirra. Eins eiga dýr þann rétt að eigendur axli sína ábyrgð og tryggi velferð og heilsu dýranna.

Matvælastofnun sinnir eftirliti með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum, kjötvinnslum, mjólkurbúum og eggjaframleiðslu, eftirliti með sjávarafurðum og öllu inn- og útflutningseftirliti sem fellur undir stofnunina. Opinberu eftirliti skal sinna reglulega með öllum rekstraraðilum.

Eftirlitið er áhættumiðað og byggir á áhættumati og eftirlitsáætlun stofnunarinnar. Tíðni opinbers eftirlits skal þannig vera í réttu hlutfalli við áhættuna sem fylgir hráefninu, afurðinni og framleiðsluaðferðinni og umfangi framleiðslunnar. Auk þess sem taka skal tillit til frammistöðu fyrirtækja í eftirliti og áreiðanleika þess innra eftirlits sem þau sinna.

Reglubundið eftirlit skal að öllu jöfnu fara fram án tilkynningar fyrir fram þ.e. vera óboðað, sbr. lög um matvæli og opinbert eftirlit* og því er mikilvægt að rekstraraðilar taki vel á móti eftirlitsmönnum stofnunarinnar. Vegna sérstakra aðstæðna eða ef ætlunin er að skoða ákveðna eða viðameiri þætti starfseminnar þar sem nauðsynlegt að lykilstarfsmenn rekstraraðila séu viðstaddir, þá hefur Matvælastofnun heimild að boða eftirlit með stuttum fyrirvara. Almenna reglan er þó að framkvæma eftirlit óboðað.

Matvælastofnun óskar eftir samvinnu við fyrirtæki og dýraeigendur svo hægt sé að stunda eftirlit með starfseminni eins og ber skv. lögum.

*24. gr. laga um matvæli og 9. gr. í reglugerð (EB) 2017/625 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt, sem innleidd var með reglugerð nr. 234/2020.


Getum við bætt efni síðunnar?