Fara í efni

Eftirlit með svínum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlit með svínabúum er með því mesta sem framkvæmt er með dýrum hérlendis. Tíðni reglubundins eftirlits er einu sinni á ári og auk þess er daglegt eftirlit með velferð og heilsu svína við slátrun. Einnig þurfa svínabú að hafa samning við þjónustudýralækni sem fer á búin mánaðarlega.

Hefðbundin svínabú eru 18 talsins á landinu. Gyltur eru haldnar á 8 þeirra og restin eru eldisbú þar sem grísir eru aldir til slátrunar.

Samkvæmt lögum skal opinbert eftirlit vera áhættumiðað. Árið 2018 vann Matvælastofnun mat á eftirlitsþörf í frumframleiðslu og öðru dýrahaldi.

Til þess að forgangsraða eftirliti með dýrum út frá áhættu fyrir dýravelferð og matvælaöryggi hafa verið skilgreindir ákveðnir áhættuþættir sem horft er til við áhættuflokkunina. Fyrir hvern áhættuþátt eru gefin stig eftir því hve mikil áhættan er þ.e. eftir því sem áhættan er meiri eru gefin fleiri áhættustig. Þannig er horft til áhættu varðandi skort á eigin eftirliti umráðamanna hvaða möguleika dýr hafi til að sýna eðlilegt atferli og afleiðingar það hefur ef þau geta það ekki, mögulegan skort á umhirðu og afleiðingar þess, sjúkdóma- og slysahættu og sýnileiki gagnvart almenningi.

Á grundvelli áhættumatsins er tíðni reglubundins eftirlits ákveðin og dýrategundir/starfsemi áhættuflokkuð. Svínahald er metið í áhættuflokk 1 sem gerir tíðni reglubundins eftirlits einu sinni á ári sem er sú mesta hjá öllum búfjártegundum. Í reglubundnu eftirliti er dýravelferð og hollustuhættir skoðaðir á búum auk ýmissa skráninga. Þá er daglega fylgst með þáttum sem gefa vísbendingar um heilsu og velferð svína á búum, með eftirliti opinberra dýralækna í sláturhúsum.

Svínabændur eru matvælaframleiðendur og um þá gilda lög um matvæli og gildandi reglugerðir þar um. Þetta felur m.a. í sér að svínabú þurfa starfsleyfi frá Matvælastofnun og tilkynna þarf áður en starfsemi hefst og ef breytingar á starfsemi eiga sér stað. Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna sinna einnig eftirliti á svínabúum á atriðum sem lúta að umhverfisþáttum.

Um aðbúnað svína gilda lög um velferð dýra og reglugerð um velferð svína. Í reglugerð um velferð svína er m.a. krafa um að umráðamaður svínabús hafi menntun eða víðtæka reynslu í umsjá svína. Sömuleiðis eru skráningar á þjálfun starfsmanna skilyrði. Matvælastofnun fer með eftirlit með því hvort lágmarkskröfum regluverks sé framfylgt.

Sjálfstætt starfandi dýralæknum sem sinna svínabúum er skylt að gera þjónustusamning milli sín og búsins. Með þessum samningi skuldbindur dýralæknir sig til þess að heimsækja búið að lágmarki mánaðarlega og fylgjast með heilsu og velferð dýra og ráðleggja um fyrirbyggjandi aðgerðir. Þjónustudýralæknir stjórnar lyfjanotkun á búinu og Matvælastofnun hefur eftirlit með lyfjaskráningum. Auk þess tíðkast það að fá utanaðkomandi ráðgjafa og dýralækna til að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir heilsu og velferð svína á búunum.


Getum við bætt efni síðunnar?